Efling og ríkið undirrita kjarasamninga

30. 08, 2024

Samninganefnd Eflingar og samninganefnd ríkisins náðu í gær samkomulagi um nýjan kjarasamning og var hann undirritaður síðdegis í gær. Samningurinn gildir til 31. mars árið 2028, samþykki félagar í Eflingu stéttarfélagi hann. Atkvæðagreiðsla um samninginn mun hefjast á næstu dögum. 

Launahækkanir samkvæmt samningnum eru í samræmi við þann ramma sem settur var í kjarasamningum Eflingar við Samtök atvinnulífsins á almenna markaðinum í vor. Laun hækka afturvirkt um 3,25% frá 1. apríl síðastliðnum, um 23.750 krónur. Sambærilegar launahækkanir koma til framkvæmd á sama tíma næstu þrjú ár einnig. 

Þá hækka desember- og orlofsuppbót á samningstímanum. Desemberuppbót verður við lok samningstímans orðin 118 þúsund krónur og orlofsuppbót 64 þúsund krónur. 

Þá eru gerðar ýmsar breytingar á greiðslum fyrir yfirvinnu, á vaktaálagi og bakvöktum, svo nokkuð sé nefnt. 

Eflingarfélagar sem starfa eftir kjarasamningum stéttarfélagsins eru hvattir til að kynna sér samninginn og taka þátt í atkvæðagreiðslu um hann þegar hún hefst. Upplýsingar um atkvæðagreiðsluna verða birtar hér á síðu Eflingar á allra næstu dögum.