Gleðilega verslunarmannahelgi 

Efling stéttarfélag óskar félagsfólki sínu og fjölskyldum þess ánægjulegrar verslunarmannahelgar. Félagið minnir enn fremur á að næstkomandi mánudagur, 5. ágúst, er frídagur verslunarmanna og er hann samkvæmt kjarasamningum sérstakur frídagur.

Hafi verið samið við starfsmann um að gegna reglubundinni vinnuskyldu alla virka daga nýtur hann leyfist á sérstökum frídögum þegar þeir bera upp á virkan dag, líkt og frídagur verslunarmanna, án þess að reglubundin laun skerðist. 

Öll aukavinna á sérstökum frídögum skal greiðast með yfirvinnukaupi, en þó geta aðrar reglur gilt um starfsfólk í vaktavinnu. Yfirvinnukaup er 80% hærra en dagvinnukaup, eða 1.0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Félagsfólk er hvatt til að kynna sér hvaða reglur gilda um launagreiðslur til þess, verði það við vinnu næstkomandi mánudag. Þá er félagsfólk enn fremur hvatt til að fara vel yfir launaseðla sína við næstu útborgun og tryggja að laun þess hafi verið rétt greidd. 

Skrifstofa Eflingar verður að venju lokuð á frídegi verslunarmanna, næstkomandi mánudag. Opið verður aftur þriðjudaginn 6. ágúst samkvæmt sumaropnunartíma skrifstofunnar klukkan 10:00. 

Verslunarmannahelgin er einhver mesta ferðahelgi ársins hverju sinni. Vafalítið verður sumt félagsfólk Eflingar á ferðinni um helgina og hvetur félagið það til að fara varlega í umferðinni og njóta helgarinnar.