Seðlabankinn heldur stýrivöxtum óbreyttum 

Stýrivextir Seðlabanka Íslands verða óbreyttir, áfram 9,25%, að því er kemur fram í ákvörðun Peningastefnunefndar bankans. Verðbólga hefur aukist frá síðustu stýrivaxtaákvörðun. 

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir myndu haldast óbreyttir enn um sinn, og hafa þeir nú verið 9,25% í heilt ár. Í tilkynningu bankans vegna ákvörðunarinnar kemur fram að undirliggjandi verðbólga sé enn mikil, verðhækkanir hafi orðið á breiðum grunni auk þess sem húsnæðisliðurinn vegi þung. Þó hægt hafi á innlendri eftirspurn undanfarið sé enn spenna í þjóðfélaginu og lítið hafi dregið þar úr frá því á fundi peningastefnunefndar í maí. 

Horfur séu því á að það geti tekið nokkurn tíma að ná ásættanlegri hjöðnun verðbólgu og því séu núverandi stýrivextir hæfilegir.