„Einhliða og einstrengingslegar aðgerðir Seðlabankans gegn verðbólgu leggjast með mestum þunga á tekjulægra og eignaminna launafólk.“ Svo segir í ályktun stjórnar Eflingar stéttarfélags sem samþykkt var á stjórnarfundi félagsins í gær. Þar segir jafnframt að það sé efnafólk sem knýr áfram einkaneyslu, sem kyndi undir verðbólgu. Tekjulægri og eignaminni landsmenn beri þar ekki ábyrgð.
Fimmtu hæstu stýrivextir í Evrópu
Seðlabanki Íslands ákvað í fyrradag að halda óbreyttum stýrivöxtum, 9,25%, og hafa stýrivextir verið svo háir í heilt ár nú. Aðeins í fjórum öðrum löndum í Evrópu eru stýrivextir hærri en á Íslandi.
Stýrivextir eru hærri í Úkraínu, sem verst innrás Rússa, sem einnig eru með hærri stýrivexti en á Íslandi. Í Rússlandi eru vextirnir 18% en 13% í Úkraínu, og voru lækkaðir þar síðast í júní. Þriðja landið er fylgihnöttur Rússa, Belarús, þar sem vextirnir eru nú 9,5%, og hafa farið lækkandi. Fjórða landið er Tyrkland þar sem stýrivextir eru heil 50%. Verðbólga í Tyrklandi lækkaði í fyrsta skipti í 8 mánuði í júlí síðastliðnum en stendur eftir sem áður í 62%.
Stýrivextir á Íslandi eru þá töluvert hærri en á hinum Norðurlöndunum. Hæstir eru þeir í Noregi, 4,5%, þá í Finnlandi, 4,25%, í Svíþjóð eru þeir 3,5% og í Danmörku 3,35%.
Verðbólga á Íslandi hefur hjaðnað nokkuð frá því að hún náði hámarki í fyrra, þá í 10,2%, en stendur nú í 6,3%. Hún fór lægst í 5,8% í júní síðastliðnum.
Eflingarfélagar bera ekki ábyrgð á verðbólgunni
Í ályktun stjórnar Eflingar er bent á að yfir helmingur félagsfólks Eflingar eigi erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun Vörðu-rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. „Þetta er ekki fólkið sem ber ábyrgð á verðbólguhvetjandi neyslu í landinu. Aðgerðir Seðlabankans eru því óréttlátar og ómarkvissar í meira lagi.“
Ófremdarástand í húsnæðismálum og hækkanir á matarkörfunni, ásamt annarri þjónustu séu helstu orsakir verðbólgunnar, segir í ályktun stjórnar Eflingar, og aðgerðir Seðlabankans beinast ekki að þeim þáttum heldur magna þá upp ef eitthvað er. „Stjórn Eflingar fordæmir þessa óréttlátu og ómarkvissu hagstjórn Seðlabankans og hvetur ríkisstjórnina til að koma að málum og beita öðrum úrræðum sem hafa meiri áhrif á hinar eiginlegu orsakir verðbólgunnar.“
Ályktunina má sjá í heild sinni hér að neðan.
Seðlabanki á villigötum
Ályktun stjórnar Eflingar, 22. ágúst 2024
Einhliða og einstrengingslegar aðgerðir Seðlabankans gegn verðbólgu leggjast með mestum þunga á tekjulægra og eignaminna launafólk. Ef núverandi verðbólga er vegna of mikillar neyslueftirspurnar, eins og Seðlabankinn gengur út frá, þá eru það ekki þau tekjulægri og eignaminni sem bera ábyrgð á því, heldur þau sem efnameiri eru.
Samkvæmt könnun Vörðu frá sl. vori eiga um 41% almenns launafólks erfitt með að ná endum saman og um 55% verkafólks í Eflingu (sjá meðfylgjandi mynd). Þetta er ekki fólkið sem ber ábyrgð á verðbólguhvetjandi neyslu í landinu. Aðgerðir Seðlabankans eru því óréttlátar og ómarkvissar í meira lagi.
Ófremdarástand í húsnæðismálum og miklar hækkanir á verði þjónustu og matvæla eru mikilvægustu orsakir núverandi verðbólgu. Aðgerðir Seðlabankans beinast ekki sérstaklega að þeim þáttum, heldur magna þá upp ef eitthvað er. Þess vegna hefur Seðlabankinn ekki náð nægilegum árangri við að lækka verðbólguna á undanförnum misserum.
Stjórn Eflingar fordæmir þessa óréttlátu og ómarkvissu hagstjórn Seðlabankans og hvetur ríkisstjórnina til að koma að málum og beita öðrum úrræðum sem hafa meiri áhrif á hinar eiginlegu orsakir verðbólgunnar. Það mætti t.d. gera með því að hægja á þenslu í ferðaþjónustu og fleiri greinum og með því að draga niður þensluhvetjandi neyslu þeirra efnameiri. Þá blasir við þörfin á afgerandi inngripum á húsnæðismarkaði.