Töluverð verðhækkun frá undirritun kjarasamninga

Verðlag í matvöruverslunum hefur hækkað um 1,45% frá því að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir í mars síðastliðnum. Hækkunin jafngildir 4% á ársgrundvelli og hefur um helmingur hennar orðið á síðustu vikum. 

Þetta kemur fram í nýjustu verðlagsmælingum verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands, ASÍ. Hækkunin milli mánaðanna júlí og júní mælist 0,65% sem jafngildir 9,2% hækkun á ársgrundvelli. Hefur verð hækkað mjög skarpt frá því í maí mánuði, eftir að hafa lækkað nokkuð í apríl. 

Langmestar eru hækkanirnar í verslunum Samkaupa, það er Kjörbúðunum, Nettó og Krambúðunum. Eru það þær hækkanir sem mest áhrif hafa til almennrar hækkunar verðlags nú en aðrar verslanir á borð við Bónus, Krónuna og Hagkaup hafa ekki hækkað verð að sama marki. Hækkunartaktur þeirra hefur verið á bilinu 0-0,6% á mánuði og gilti hið sama um Nettó, þar til nú. Hækkanir í Krambúðunum hófust fyrr, í maí, en verð þar hefur lækkað lítillega milli júní og júlí mánaðar.

Verð hefur aðeins lækkað í einni verslun, Heimkaupum, og það nokkuð skarpt, fyrst milli maí og júní mánaða og síðan enn skarpar milli júní og júlí. Verð hafði hins vegar hækkað hjá versluninni milli apríl og maí mánaða áður. 

Frekari umfjöllun má finna á vinnan.is, síðu tímarits Alþýðusambandsins.