Afkoma heimila: Ísland í alþjóðlegum samanburði

Stefán Ólafsson skrifar:

Þó laun séu almennt frekar há á Íslandi þá er afkoma heimila launafólks verri en almennt er á hinum Norðurlöndunum. Það skýrist einkum af hærra verðlagi hér, lakara velferðarkerfi og einstaklega miklum húsnæðiskostnaði, einkum vegna hærra vaxtarstigs á íbúðalánum og hárrar leigu hér á landi. Í raun og veru hefur afleit staða húsnæðismála skaðað kjarastöðu íslenskra heimila umfram það sem gerist á hinum Norðurlöndunum – og gerir enn. Hagstjórn stjórnvalda og Seðlabankans er lakari hér á landi sem þessu nemur.

Þetta sýna tölur um erfiðleika heimila við að ná endum saman í daglegu lífi (sjá mynd 1). Samanburðartölurnar ná yfir tímabilið frá 2007 til 2023. Öll árin er hlutfall heimila sem segjast eiga erfitt með að ná endum saman hæst á Íslandi. Munurinn er langmestur, Íslandi í óhag, þegar hefur harðnað á dalnum í efnahagslífinu, eins og í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 og nú eftir að verðbólgan og stýrivextir jukust mikið 2022 og 2023. 

Þetta bendir til að þrengingar í efnahagslífi leggist með meiri þunga á heimilin á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Að því leyti er hagstjórn á Íslandi ósanngjarnari í garð heimila launafólks. Byrðum vegna erfiðleika er í meiri mæli velt yfir á herðar launafólks hér á landi. 

Myndin sýnir vel hversu mikið kjör heimilanna hafa versnað á árunum í kjölfar Covid-kreppunnar.

Mynd 1 Afkomuþróun heimila á Íslandi og hinum Norðurlöndunum, frá 2007 til 2023. Hlutfall heimila í erfiðleikum við að ná endum saman.
Mynd: Eurostat og kannanir Vörðu

Eftir fjármálahrunið 2008 fór hlutfall heimila í erfiðleikum með að ná endum saman á Íslandi úr um 27% árið 2007 í um 53% 2011, á meðan lítil breyting var á erfiðleikum á hinum Norðurlöndunum. Eftir 2011 jukust erfiðleikar í afkomu nokkuð í Danmörku til 2014, en ekkert í líkingu við aukninguna á Íslandi. 

Eftir að verðbólgan jókst frá og með seinni hluta 2021 og til 2023 þyngdist rekstur heimila mikið á Íslandi, mun meira en á hinum Norðurlöndunum, eins og myndin sýnir. 

Hér fór hlutfall heimila í erfiðleikum úr tæplega 24% árið 2021 í um 44% árið 2023. Aukningin var nálægt 20 %-stigum. Mest var aukningin í Danmörku af hinum norrænu löndunum á sama tíma, eða úr 23,3% í 33,6%. Aukningin þar nam því um 10 %-stigum, eða um helmingi af því sem varð hér. 

Meðal hinna Norðurlandanna var meðalaukning afkomuerfiðleika frá 2021 til 2023 um 6,6 %-stig á móti 20 %-stiga aukningu á Íslandi. Staðan versnaði þannig langmest á Íslandi, þó gangur efnahagslífsins (hagvöxtur) væri í raun mun betri hér en í samanburðarlöndunum, bæði árin 2022 og 2023. Sá mikli hagvöxtur fór að mestu í aukinn hagnað fyrirtækja samhliða verri afkomu launafólks.

Afkoman hefur batnað lítillega vorið 2024, samkvæmt nýrri könnun Vörðu. Í stað þess að rúm 44% heimila launafólks hafi verið í erfiðleikum með að ná endum saman þá var hlutfallið komið niður í tæp 41%, í kjölfar lækkunar verðbólgu. Þetta er þó lítill bati. 

Síðan má búast við að þegar áhrif nýja kjarasamningsins á almennum markaði koma að fullu fram (haustið 2024) þá batni staðan enn frekar. En hversu mikið ræðast af framvindu verðbólgunar og vaxtastiginu í landinu – sem hefur ekki verið uppörvandi til þessa.

Staðan á árinu 2023 var afleit frá sjónarhóli launafólks. Almennt finna tekjulægri stéttir mest fyrir erfiðleikum við að ná endum saman, enda minna borð fyrir báru hjá þeim þegar verðbólga og stýrivaxtahækkanir skella á (sjá nánar hér). 

Evrópulönd samanborin 2023

Eins og mynd 1 sýnir þá hafði staðan á Íslandi versnað mjög mikið frá 2022 til 2023. En hvernig var staðan á Íslandi í samanburði við flest öll Evrópulönd á síðasta ári? Það má sjá á mynd 2.

Mynd 2 Erfiðleikar við að ná endum saman: Ísland, hin Norðurlöndin og önnur Evrópulönd samanborin.
Mynd: Eurostat og kannanir Vörðu

Á árinu 2023 voru 14 Evrópulönd með minni efnahagslega erfiðleika heimila en Ísland. Árið 2022 höfðu hins vegar einungis um 8 lönd verið með minni erfiðleikar við að ná endum saman en var á Íslandi.

Ísland var nálægt meðaltali allra Evrópulanda á síðasta ári þó hagsældarstig og náttúruauðlindir þjóðarinnar gefi tilefni til mun betri afkomu heimilanna.

Samantekt

Þegar allt er samantekið blasir við að staða launafólks er almennt lakari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Þegar harðnar á dalnum í efnahagslífinu þyngjast byrðar heimilanna jafnframt mun meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. 

Þannig átti mun hærra hlutfall heimila í erfiðleikum við að ná endum saman hér en var hjá frændþjóðunum á árinu 2023, eða um 44% heimila á Íslandi á móti 25,5% á hinum Norðurlöndunum að meðaltali. Lægst var það um 20% í Noregi. 

Sú leið sem farin hefur verið í baráttunni við verðbólguna hér á landi hefur þannig lagt mun þyngri byrðar á heimili launafólks en gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum.

Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.

Greinin birtist fyrst á Heimildinni 15. september 2024.