Það er lágkúrulegt af ríkisstjórninni að ætla að fjármagna nýtt stuðningskerfi við atvinnuþátttöku öryrkja að hluta með því að skerða lífeyrisréttindi verka- og láglaunafólks. Nái áform ríkisstjórnarinnar, um að fella niður framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða á næstu tveimur árum, fram að ganga yrði það hins vegar raunin.
Svo segir í ályktun stjórnar Eflingar stéttarfélags, sem samþykkt var á fundi stjórnarinnar í gær, 24. september. Þar er rakið að Gildi, lífeyrissjóður verkafólks, beri mestar byrðar lífeyrissjóða vegna hærri tíðni örorku meðal erfiðisfólks. Ef framlag ríkisins verður aflagt þyrfti láglaunafólk að sætta sig við á bilinu 200 til 270 þúsund króna lægri ellilífeyri árlega en fengist hjá öðrum lífeyrissjóðum sem hafa minni örorkubyrði.
„Ef þessi áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir til fulls þá mun stjórn Eflingar, samninganefnd og trúnaðarráð mæta því af fullum þunga,“ segir í ályktun stjórnar sem lesa má í heild hér að neðan.
Ályktun stjórnar Eflingar stéttarfélags, samþykkt á fundi 23. september 2024:
Stjórnvöld seilast í vasa verkafólks til að fjármagna nýtt örorkustuðningskerfi
Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða verði fellt niður á næstu tveimur árum.
Þetta framlag var samið um í kjarasamningi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda árið 2005. Lífeyrissjóður verkafólks (Gildi) hefur mesta byrði vegna hærri tíðni örorku meðal erfiðisvinnufólks. Gildi hefur fengið um 40% af núverandi framlagi til að mæta þessari miklu byrði (sem þó hefði þurft að vera meira til að ná fullri jöfnun). Án örorkuframlagsins yrðu ellilífeyrisréttindi sjóðfélaga Gildis umtalsvert lægri en að meðaltali hjá lífeyrissjóðunum og enn frekar í samanburði við sjóði með minnstu örorkubyrðina.
Lífeyrissjóðir verkafólks myndu þurfa að rýra réttindi sjóðfélaga ef framlagið fellur alveg niður. Hjá Gildi yrði ellilífeyrir um 30 þúsund krónum lægri á mánuði en hjá öðrum sjóðum að meðaltali og um 50 þúsund kónum lægri en hjá sjóðum með lægstu örorkuybyrði. Lífeyrir TR myndi einungis bæta innan við helming af þessari réttindaskerðingu fyrir flesta. Láglaunafólk yrði þá að sætta sig við um 200-270 þúsund krónum minna í ellilífeyri á ári hverju en fengist frá öðrum lífeyrissjóðum sem hafa minni örorkubyrði.
Þetta væri með öllu ósættanlegt fyrir verkafólk og annað láglaunafólk. Lágkúrulegt er hjá ríkisstjórninni að ætla að fjármagna nýtt stuðningskerfi við atvinnuþátttöku öryrkja að hluta með því að skerða lífeyrisréttindi verka og láglaunafólks.
Þó nýtt örorkustuðningskerfi gæti verið til bóta og fækkað öryrkjum á lífeyri (sem á þó alveg eftir að koma í ljós) þá mun hin ójafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða áfram vera fyrir hendi og bitna langmest á lífeyrisréttindum láglaunafólks.
Stjórn Eflingar telur með öllu ófært að þessi umsömdu réttindi séu felld niður án samráðs eða annarra umbóta sem jafna réttindastöðu stétta innan lífeyrissjóðakerfisins. Þeir 5 sjóðir sem hafa mestu byrðina þurfa að halda minnst fullu örorkuframlagi áfram, að óbreyttu fyrirkomulagi örorkulífeyrisréttinda í lífeyrissjóðunum.
Ef þessi áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir til fulls þá mun stjórn Eflingar, samninganefnd og trúnaðarráð mæta því af fullum þunga.