Er allt í gulu á þínum vinnustað?

Efling stéttarfélag tekur þátt í að vekja athygli á Gulum september sem er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Semikomman (;) er kennimerkið fyrir Gulan september en táknið er notað víða um heim til að sýna samstöðu með geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Það vísar til framhalds, seiglu og vonar.

Á Íslandi deyja að meðaltali 39 einstaklingar í sjálfsvígi, á ári. Ef þú hefur sjálfsvígshugsanir er mikilvægt að segja einhverjum frá því og einangra þig ekki. Það að deila þessum hugsunum með einhverjum sem þú treystir er hjálplegt. Flestum líður betur og finna til léttis þegar þeir hafa sagt öðrum frá því hvað þeir eru að glíma við. Þú getur valið að segja  vini, ættingja, kennara, vinnufélaga eða öðrum sem þú treystir frá líðan þinni.  

Gulur september:
Guli dagurinn verður 10. september og eru allir sem hafa kost á hvattir til að klæðast gulu þann dag. Á síðastliðnu ári var í fyrsta skipti heill mánuður tileinkaður þessu brýna málefni á Íslandi. Það er von undirbúningshópsins að Gulur september, auki meðvitund samfélagsins um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna – sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju. Að verkefninu standa fulltrúar frá: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossi Íslands, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. 

Hér má sjá upplýsingaskjal um Gulan september:

Ef sjálfsvígshætta er til staðar er mikilvægt að styðja viðkomandi í að leita sér aðstoðar strax.
Hér má sjá tengiliði sem hægt er að hafa samband við:

Símaráðgjöf Heilsuveru 1700 og netspjallið heilsuvera.is (opið alla daga frá 8-22)
Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið 1717.is (opið allan sólarhringinn)
Píetasíminn 552 2218 (opið allan sólahringinn)
Sjá nánar á www.sjalfsvig.is