Samninganefnd Eflingar stéttarfélags og samninganefnd Orkuveitu Reykjavíkur undirrituðu í gær nýjan kjarasamning. Samningurinn gildir fyrir félagsfólk Eflingar sem vinnur hjá Orkuveitunni auk dótturfyrirtækja hennar, Orku náttúrunnar og Veitur.
Hinn nýji samningur byggir á Stöðugleikasamningum sem Efling og önnur sambönd og félög innan Alþýðusambands Íslands gerðu við Samtök atvinnulífsins í mars síðastliðnum. Samningurinn, sem gildir til 1. febrúar 2028, felur því í sér samskonar launahækkanir og breytingar og fylgdu Stöðugleikasamningnum.
Mánaðarlaun hækka afturvirkt frá 1. febrúar síðastliðnum um 23.750 krónur og munu hækka um sömu upphæð frá 1. janúar næstu þrjú ár. Desemberuppbót á þessu ári verður 123.600 krónur en á síðasta ári samningsins, 2027, 137.000 krónur. Orlofsuppbót á orlofsári, sem miðast við 1. maí til 30. apríl, verður 66.000 krónur fyrir yfirstandandi orlofsár en 96.000 krónur á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2027.
Þá er skerpt á ýmsum ákvæðum er varða trúnaðarmenn og aðstæður þeirra til að sinna trúnaðarmannastörfum sínum, halda óskertum launum við þau störf og sækja námskeið.
Eflingarfélagar sem vinna hjá Orkuveitunni og dótturfyrirtækjunum Orku náttúrunnar og Veitum eru hvattir til að kynna sér hinn nýja kjarasamning, sem finna má hér að neðan. Atvkæðagreiðsla um samninginn verður auglýst síðar.