Efling – stéttarfélag kallar eftir tilnefningum þingfulltrúa á 46. Þing Alþýðusambands Íslands sem haldið verður á Hótel Reykjavík Nordica dagana 16.-18. október. Þingfulltrúar eru samtals 290 talsins og skiptast þeir milli landssambanda og aðildarfélaga í hlutfalli við fjölda félagsmanna. Efling á 52 fulltrúa á þinginu.
Allir fullgildir félagsmenn í Eflingu geta tilnefnt sjálfan sig! Óskað er eftir að tilnefningar séu sendar í gegnum rafrænt eyðublað hér fyrir neðan eigi síðar en í lok dags 2. október.
Greiddir eru dagpeningar í þrjá daga fyrir setu á þinginu. Upphæðin er 16.300 kr. á dag, sbr. ákvörðun Ferðakostnaðarnefndar Fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Fulltrúar sitja þingveislu að kvöldi 17. október þeim að kostnaðarlausu. Fulltrúar sem verða fyrir launatapi vegna setu á þinginu fá það endurgreitt frá Eflingu sendi þeir skrifstofu félagsins gögn til staðfestingar.
Þing Alþýðusambandsins fer með æðsta vald í málefnum sambandsins. Þar fer fram kjör forseta og miðstjórnar auk þess sem lagabreytingar og ályktanir um stefnu sambandsins eru teknar fyrir. Dagskrá þingsins liggur fyrir og má sjá hana auk þingskjala á þingvef.