Ályktun Trúnaðarráðs Eflingar á fundi þann 12. september 2024 þar sem einnig er gripið til samstöðuaðgerðar við veitingahúsið Ítalíu á Frakkastíg:
Trúnaðarráð Eflingar – stéttarfélags fordæmir framgöngu veitingamannsins Elvars Ingimarssonar gegn verkafólki sem hann réð í vinnu á Ítalíu og fleiri veitingahús á síðustu árum. Hátt í 40 einstaklingar hafa leitað til félagsins vegna kjarasamningsbrota og launaþjófnaðar. Mynstrið í málunum er skýrt: Laun eru vanreiknuð, þau eru greidd seint eða aldrei, nauðsynleg gögn eru ekki gefin út og starfsfólk er svikið um greiðslur til stéttarfélags.
Trúnaðarráð lýsir yfir fullri samstöðu og stuðningi við þau sem hafa þolað launaþjófnað, svik og misnotkun af hálfu Elvars Ingimarssonar. Trúnaðarráð hrósar hugrekki þeirra sem ákveðið hafa að segja sögu sína opinberlega.
Trúnaðarráð hvetur alla sem hyggja á viðskipti við veitingastaði Elvars Ingimarssonar að kynna sér þá ömurlegu framkomu við starfsfólk sem þar tíðkast.
Trúnaðarráð lýsir að endingu yfir djúpum vonbrigðum vegna aðgerðaleysis íslenskra stjórnvalda. Ljóst er að launaþjófnaður og brotastarfsemi hefur stóraukist á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugi. Þessi mein leggjast þyngst á aðflutt verkafólk, en grafa þó á endanum undan velferð alls verkafólks.
Ástæðan fyrir því að launaþjófnaður viðgengst er að á Íslandi ríkir algjört afleiðingaleysi fyrir brotamenn. Engar sektir fylgja þessum brotum. Sú ríkisstjórn sem enn situr lofaði við undirritun Lífskjarasamninganna árið 2019 að sett yrðu lög gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Það loforð var svikið. Efling efndi haustið 2020 til auglýsingaherferðar gegn launaþjófnaði til að vekja athygli á stöðunni.
Trúnaðarráð Eflingar krefst þess að samstundis verði gripið til aðgerða og að ríkisstjórnin axli ábyrgð á hlutskipti þeirra sem verða fyrir launaþjófnaði á íslenskum vinnumarkaði.