Gleðin við völd á Mat og menningu

Matarilmurinn tók á móti gestum sem sóttu félagsheimili Eflingar stéttarfélags heim síðastliðinn sunnudag á skemmtiviðburðinum Mat og menningu. Gleðin var við völd í félagsheimilinu þar sem félagsfólk kom saman, gladdist og sameinaðist í áhuga á matargerð.

Eflingarfélagar frá 13 mismunandi þjóðum buðu upp á gómsætar kræsingar frá sínum upprunalöndum og leyfðu gestum viðburðarins að bragða á. Um 200 gestir lögðu leið sína í félagsheimili Eflingar til að smakka á matnum. Efling sá um að greiða allan matarkostnað.

Þetta er í annað sinn sem viðburðurinn Matur og menning var haldinn en Efling hélt viðburðinn í fyrsta sinn í fyrra við góðar undirtektir svo ákveðið var að endurtaka leikinn. Viðtökurnar í ár létu heldur ekki á sér standa og komust færri að en vildu. RÚV kíkti við á viðburðinn og má sjá frétt og myndskeið frá því HÉR.

Efling þakkar fyrir frábærar viðtökur, ljúffengan mat og skemmtilega samveru.

Hér má sjá myndir frá viðburðinum: