Kjarasamningur við SFV samþykktur með miklum meirihluta

Kjarasamningur Eflingar stéttarfélags við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta í atkvæðagreiðslu sem lauk í gær. Alls samþykktu 93 prósent þeirra sem greiddu atkvæði samninginn. 

Samningurinn er fyrsti sjálfstæði kjarasamningurinn sem Efling gerir fyrir hönd félagamanna sem starfa á hjúkrunarheimilum. Áður hafa þeir fylgt kjarasamningum við ríkið. 

Meginkrafa samninganefndar Eflingar var að tekið yrði á mönnunarvanda hjúkrunarheimilanna. Kjarasamningnum fylgdi samkomulag við stjórnvöld sem skuldbindur þau til að bregðast við og leggja fram lausnir þar á eigi síðar en 1. apríl næstkomandi. Verði ekki staðið við það samkomulag er Eflingu heimilt að segja samningnum upp.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. apríl síðastliðnum og eiga því samningsbundnar launahækkanir síðustu mánaða að greiðast nú um næstu mánaðamót. Er félagsfólk hvatt til að fara vel yfir launaseðla sína og sannreyna að allt hafi skilað sér.