Kvennafrídagurinn 49 ára – Enn langt í land

Kvennafrídagurinn 1975. Ljósmyndari: Ólafur K. Magnússon. Mynd fengin frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Í dag, 24. október 2024, eru liðin 49 ár síðan fyrsti Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn á Íslandi. Þann dag árið 1975 lögðu íslenskar konur í þúsundavís niður störf til að mótmæla margvíslegri mismunun gegn konum á vinnumarkaði og til að vekja athygli á framlagi kvenna til íslensks samfélags. Kvennafrídagurinn hefur verið endurtekinn sex sinnum síðan þá, síðast í fyrra og þá undir nafninu Kvennaverkfall. 

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 yrði sérstaklega helgað málefnum kvenna. Í upphafi árs tóku íslensk kvennasamtök höndum saman og skipulögðu aðgerðir yfir árið. Meðal annars var tillögu Rauðsokkahreyfingarinnar um að konur tækju sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október, samþykkt og hrint í framkvæmd.

Konur um allt land, og jafnvel á miðunum einnig, lögðu niður störf í tilefni dagsins. Útifundur var haldinn á Lækjartorgi og talið er að um 25 þúsund konur hafi safnast þar saman, að líkindum einhver stærsti útifundur í íslenskri sögu. Vakti Kvennafríið verulega athygli, þar á meðal út fyrir landsteinana. 

Leikurinn var svo endurtekinn í fyrsta skipti tíu árum síðar, árið 1985, sem var lokaár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Það ár söfnuðust um 18 þúsund konur saman á Lækjartorgi til að krefjast jafnra kjara og jafnréttis kynjanna í hvívetna. 

„Konur höfum hátt“

Tveir áratugir liðu þar til Kvennafrídagurinn var haldinn að nýju, en 24. október 2024 lögðu konur niður vinnu klukkan 14:08. Var það gert sökum þess að í raun væri vinnudegi kvenna lokið þá miðað við hlutfallsleg laun þeirra af launum karla. Konur gengu svo fylktu liði frá Skólavörðuholti undir slagorðinu „Konur höfum hátt“ og að Ingólfstorgi þar sem útifundur var haldinn. Talið er að um 50 þúsund manns hafi verið í miðborginni meðan fundurinn stóð, mestmegnis konur. Á þeim tíma var það um þriðjungur allra kvenna í landinu. Fundir voru einnig haldnir víðar um landið. 

Konur lögðu einnig niður störf árið 2010 og skunduðu á útifundi víða um land, í Reykjavík á Arnarhóli þar sem um 50 þúsund konur komu saman. Þann dag lögðu konur niður störf klukkan 14:25, sem sýnir hversu hægt hafði miðað á fimm árum þegar kom að launajafnrétti kynjanna. 

Næst var Kvennafrídagurinn haldinn árið 2016 en 24. október það ár lögðu konur niður störf klukkan 14:38. Útifundir voru haldnir á fimmtán stöðum um land allt þar sem krafist var kjarajafnréttis, bættrar stöðu kvenna í hvívetna og þess að ofbeldi gegn konum yrði upprætt. 

Árið 2018 var Kvennafrídagurinn haldinn undir merkjum Kvennaverkfalls. Þann dag lögðu konur niður störf klukkan 14:55 og gengu út undir kjörorðunum Breytum ekki konum, breytum samfélaginu! Þá sem áður var krafan á kjarajafnrétti en ekki síður krafan að kynbundnu ofbeldi og áreitni á vinnustöðum, heima fyrir og í almannarými linnti. Meðal ræðumanna á útifundi á Arnarhóli þann dag var Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. 

Kvennaverkfall fór síðast fram á síðasta ári, 2023. Þann dag voru konur og kvár hvött til að leggja niður störf í heilan dag, þar eð baráttan fyrir jöfnum kjörum, jafnrétti, gegn mismunun og gegn ofbeldi gengi alltof hægt. Verkfallið fór fram víða um land en í miðborg Reykjavíkur taldi lögregla að allt að 100 þúsund manns, flest konur, hefðu komið saman. 

Sé horft til talna var óleiðréttur launamunur kynjanna árið 2022 8,6% körlum í vil. Á síðasta ári hafði hann hins vegar hækkað og var þá 9,3%. 

Það er því enn langt í land og flest sem bendir, því miður, til þess að Kvennaverkfallið á síðasta ári hafi ekki verið hið síðasta sem nauðsynlegt reynist að halda.