Stjórn norræna stéttarfélagasambandsins SUN hélt stjórnarfund sinn í húsakynnum Eflingar í Reykjavík þann 21. og 22. október síðastliðinn. Efling varð fullgildur meðlimur að SUN fyrr á þessu ári, eftir að hafa verið áheyrnarmeðlimur í hálft ár.
Mörg af stærstu verkalýðsfélögum Norðurlandanna á almennum vinnumarkaði eiga aðild að SUN. Bandalagið er vettvangur samráðs og upplýsingagjafar varðandi málefni verkafólks sem starfar við öryggisvörslu, ræstingar og fasgeignaumsjón. Efling er aðili að ræstingar- og öryggisgæsludeildum SUN.
Megintilgangur SUN er að stuðla að samráði og upplýsingagjöf um hagsmuni verkafólks innan aðildarfélaganna. Á stjórnarfundinum skiptust fulltrúar m.a. á að flytja skýrslur um stöðu kjarasamningsgerðar og ástand stjórnmála í sínum heimalöndum, sem er reglulegur dagskrárliður á fundum stjórnar og deildahópa SUN. Viðar Þorsteinsson fræðslu- og félagsmálastjóri Eflingar sat allan fundinn f.h. Eflingar en hann hefur jafnframt sótt aðra stjórnar- og deildarfundi í SUN síðastliðið ár.
Formaður SUN er John Nielsen, sem einnig er formaður danska stéttarfélagsins Serviceforbundet. Formaður ræstingadeildar SUN er Ewa Edström, en hún er jafnframt landsritari ræstingageirans innan sænska verkalýðsfélagsins Fastighetsanställdas Förbund. Formaður öryggisvarðadeildar SUN er Terje Mikkelsen, en hann er einnig deildarformaður öryggisvarða innan norska verkalýðsfélagsins Norsk Arbeidsmandsforbund.
Viðstödd fundinn í Reykjavík voru auk þeirra fulltrúar frá Service- och Kommunikationsfacket (Seko) í Svíþjóð, 3F í Danmörku, PAM í Finnlandi, Norsk Tjenstemannslag í Noregi, Fagforbundet í Noregi og Havnar Arbeiðskvinnufelag í Færeyjum.
„Það er mjög ánægjulegt að Efling sé orðinn fullgildur þáttakandi í norrænu samstarfi stéttarfélaga í gegnum SUN. Með því að eiga samráð við þessi systurfélög okkar styrkjum við samningsstöðu Efingarfélaga. Við höfum nú aðgang að réttum upplýsingum og beinni reynslu þessara félaga af norræna kjaraumhverfinu, sem er mikils virði fyrir okkur í ljósi þess hversu mikið er vísað til Norðurlandanna í umræðunni á Íslandi.“ Þetta sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar að afloknum stjórnarfundi SUN.