Á næstu vikum og mánuðum mun húsnæði Eflingar stéttarfélags taka gagngerum stakkaskiptum. Framkvæmdir við algjöra endurnýjun skrifstofuhúsnæðis félagsins í Guðrúnartúni 1 eru framundan, og eru raunar að hluta hafnar.
Sökum þessa vinnur starfsfólk Eflingar að því þessa dagana að undirbúa framkvæmdirnar. Meðal þeirra verkefna sem því fylgja er grisjun á ýmsum búnaði og húsgögnum á skrifstofunni, sem ekki mun nýtast eftir að endurnýjað húsnæði verður tekið í gagnið á næsta ári.
Vegna þessa afhenti Efling Kaffistofu Samhjálpar á dögum 50 stóla sem munu nýtast vel fyrir þá sem þangað sækja. Kaffistofa Samhjálpar er nágranni Eflingar, enda gengið inn í hana frá Guðrúnartúni. Starfsemi Kaffistofunnar er gríðarlega mikilvæg en hún er ætluð þeim sem eru í neyð og hafa ekki tök á að sjá sér fyrir mat sjálf. Það er Eflingu stéttarfélagi heiður og ánægja að geta rétt sínum góðu nágrönnum hjálparhönd, þó í litlu sé.