Ályktun stjórnar Eflingar – Íslenskir arðræningjar níðast á verkfólki í Bretlandi

Á meðan íslensku auðkýfingarnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, Bakkavararbræður, maka krókinn þarf starfsfólk í verksmiðjum þeirra í Bretlandi að leita á náðir hjálparsamtaka. Stjórn Eflingar stéttarfélags fordæmir framgöngu bræðranna gagnvart starfsfólki sínu sem nú hefur verið í verkfalli í sjö vikur til að krefjast mannsæmandi kjara. Á sama tíma lýsir stjórnin samstöðu sinni með breskum félögum sínum í stéttarfélaginu Unite the Union.

Þetta er inntak ályktunar stjórnar Eflingar sem samþykkt var á fundi stjórnarinnar í gær. Fulltrúar stéttarfélagsins Unite the Union komu hingað til lands í síðustu viku til að þrýsta á þá Bakkavararbræður um að ganga að hófsömum kröfum félagsfólks. Efling var kollegum sínum innan handar þá og mun verða það áfram, eins lengi og þörf krefur. 

Ályktunin fer hér að neðan. 

Íslenskir arðræningjar níðast á verkfólki í Bretlandi

Á meðan íslenskir milljarðamæringar maka krókinn þarf starfsfólk í breskum verksmiðjum í þeirra eigu að leita á náðir hjálparstofnana til að fæða sig og fjölskyldur sínar. Stjórn Eflingar stéttarfélags fordæmir framgöngu þeirra Bakkavararbræðra, Lýðs og Ágústs Guðmundssona, gegn starfsfólki í verksmiðjum Bakkavarar í Bretlandi. Á sama tíma lýsir stjórnin skilyrðislausri samstöðu sinni og stuðningi við félaga sína í breska stéttarfélaginu Unite the Union, sem nú hafa verið í verkfalli svo vikum skiptir til að krefjast bættra kjara. 

Yfir 700 félagar í Unite the Union í verksmiðju Bakkavarar í Spalding í Englandi hafa nú verið í verkfalli í sjö vikur. Þeir krefjast mannsæmandi kjara, en þau laun sem Bakkavör greiðir eru fátæktarlaun, sem duga hvergi nærri fyrir framfærslu. Unite the Union hefur krafist hófsamra launahækkana fyrir félaga sína en Bakkavör virðir þær kröfur að engu. Þess í stað gerir fyrirtækið sig sekt um ítrekuð og yfirstandandi verkfallsbrot með því að fá fólk úr öðrum verksmiðjum sínum til að ganga í störf verkfallsfólks. Stjórn Eflingar lýsir ímugust sinni á þeirri framgöngu stjórnenda margmilljarða samsteypunnar. 

Á sama tíma og félagar Eflingarfólks í Bretlandi hafa þurft að standa tólf tíma vaktir á hrollköldu verksmiðjugólfi við erfiðisvinnu, fyrir smánarlaun, sitja stjórnendur Bakkavarar í skrifstofum sínum og hirða hundraðföld laun á við fólkið á gólfinu. 

Eigendur fyrirtækisins, Bakkavararbræðurnir Lýður og Ágúst og aðrir sem eiga Bakkavör á móti þeim, hafa þá greitt sér út úr fyrirtækinu sem nemur 28 milljörðum króna á síðustu fimm árum. Þeir ljá hins vegar ekki máls á því að greiða þeim sem raunverulega skapa verðmætin, hagnaðinn, annað en fátæktarlaun.

Stjórn Eflingar stéttarfélags lýsir andstyggð sinni á þessari framgöngu fulltrúa auðstéttarinnar í garð verkafólks. Efling stendur einörð með félögum sínum í Unite the Union og þeirra sanngjörnu og réttmætu kröfum. Efling mun beita því afli sem unnt er til að styðja við og styrkja breska félaga sína í baráttu sinni gegn auðkýfingunum íslensku, með ráðum og dáð.