Efling býður félagsfólki aðgang að Bara tala tungumálaforritinu

Efling stéttarfélag hefur samið við Bara tala, sem er smáforrit fyrir síma sem ætlað er að kenna fólki einfalda íslensku. Keypt hafa verið 200 ársleyfi sem verður dreift til félagsfólks Eflingar, því að kostnaðarlausu. 

Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og verður árangurinn af því metinn jafnt og þétt. Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á vef félagsins og má nálgast umsóknareyðublað hér. Úthlutun leyfa hefst í desember. 

Bara tala er stafræn íslenskukennsla, sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Um er að ræða app eða smáforrit fyrir síma sem byggir á svipuðum áherslum og þekkt tungumálakennsluforrit á borð við Duolingo, til að mynda. Áhersla er lögð á talmál og þjálfun þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli í að læra og æfa sig í framsögn á íslensku. Þá er áherslan einnig á orð og frasa sem tengjast störfum og því að geta bjargað sér á íslensku í daglegu lífi.

Hlutverk Eflingar er að styðja við sitt félagsfólk í hvívetna, eftir því sem félaginu er kleift. Samstarfið við Bara tala er grein af þeim meiði og mun nýtast til að styrkja félagsfólk Eflingar í íslensku samfélagi, á vinnumarkaði og í daglegu lífi þess. 

Frekari upplýsingar og umsóknareyðublað er að finna hér.