Efling fær viðurkenningu fyrir mannauðsstefnu

Skrifstofa Eflingar stéttarfélags hefur hlotið viðurkenningu fyrir að vera mannauðshugsandi vinnustaður árið 2024. Sú viðurkenning er veitt leiðandi íslenskum vinnustöðum sem undirgangast ströng skilyrði HR Monitor, en fyrirtækið keyrir rauntíma mannauðsmælingar á fjölda vinnustaða. 

Meðal þeirra skilyrða sem uppfylla þarf eru að hafa sent út mannauðsmælingar meðal allra starfsmanna vinnustaðarins að lágmarki ársfjórðungslega en allt upp í mánaðarlega. Þá skal upplýsa starfsmenn reglulega um niðurstöður þeirra mælinga og árangur vinnustaðarins. 

Skrifstofa Eflingar hefur keyrt mælingar HR Monitor með reglulegum hætti og nýtt sér þær niðurstöður sem þar birtast. Þannig hefur verið hægt að bregðast strax við óskum starfsmanna eða ábendingum varðandi starfsemina, til mikilla hagsbóta fyrir reksturinn. Stjórnendur fá þá mikilvæga innsýn yfir reksturinn og yfirsýn yfir árangur sinna sviða.