Nýjung: Starfslokanámskeið – nú í boði yfir daginn 

Starfslokanámskeið Eflingar hafa verið eftirsótt af félagsfólki sem er í þann mund að undirbúa starfslok og hefja eftirlaunatímann. Námskeiðin hafa hingað til aðeins verið í boði á kvöldin en nú verður námskeiðið einnig í boði sem heilsdagsnámskeið.  

Að hætta á vinnumarkaði er tímamót fyrir hvern og einn svo þann tíma þarf að undirbúa vel. Breytingin hefur mikil áhrif á líf fólks og er gjarnan stórt skref að stíga. Með góðum undirbúningi er hægt að gera nýja hlutverkið í lífinu jákvætt og skemmtilegt. Á námskeiðinu fjalla sérfræðingar til að mynda um iðju og lífsleikni eftir starfslok, sjúkratryggingar, lífeyrisréttindi, heilsu og réttindi hjá stéttarfélaginu og svara fyrirspurnum frá þátttakendum. Einnig verður fjallað um hvað er í boði í félagsstarfi og fræðslu fyrir fólk sem er komið á besta aldur. 

Námskeiðið er haldið yfir daginn 12. nóvember frá kl. 9:30-15:15. Boðið verður upp á hádegismat. Heimilt er að bjóða maka með. 

Margir vinnustaðir leyfa starfsfólki sem er að skipuleggja starfslok að sækja námskeið af þessu tagi á dagvinnutíma á fullum launum, þótt um slíkt hafi ekki verið samið sérstaklega í kjarasamningum. Efling hvetur félagsfólk sitt til að kanna málið hjá sínum atvinnurekanda og reyna að komast að samkomulagi. 

Kennsla fer fram í húsnæði Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð og er félagsfólki að kostnaðarlausu. Námskeiðið er haldið í samstarfi við Mími.