Orlofssjóður Eflingar stéttarfélags gekk í dag frá kaupum á nýjum orlofskostum fyrir félagsmenn á Siglufirði. Um er að ræða tvær raðhúsíbúðir í nýbyggingu að Eyrarflöt. Að óbreyttu verða íbúðirnar afhentar í maí á næsta ári og bætast þá við glæsilegan húsakost sem félagsfólk Eflingar hefur um að velja til orlofsdvalar.
Íbúðirnar tvær verða báðar þriggja herbergja en misstórar þó. Sú stærri er tæplega 150 fermetrar, með litlum bílskúr, en sú minni rúmir 120 fermetrar. Báðar verða íbúðirnar fullbúnar með öllum þægindum auk þess sem báðum mun fylgja sólpallur og heitur pottur.
Orlofssjóður Eflingar á og rekur á áttunda tug orlofshúsa og íbúða vítt og breitt um landið. Þúsundir félagsfólks Eflingar nýtur þess að hafa aðgang að orlofshúsum félagsins að sumri, jafnt sem vetri, og stefna félagsins er halda áfram að byggja upp þjónustu við félagsfólk en frekara mæli. Kaupin á Siglufirði eru liður í því og ber að fagna þeim vel og innilega.