Fulltrúar breska stéttarfélagsins Unite the Union komu til Íslands í síðustu viku til að þrýsta á að Bakkavararbræður, þeir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, borguðu starfsfólki sínu í Bretlandi mannsæmandi kjör. Um 400 félagasmenn félagsins, sem vinna í verksmiðju Bakkavarar í Spalding í Englandi, hafa verið í verkfalli frá 27. september til að knýja á um launahækkanir.
Þeir bræður eiga um helming í Bakkavör en félagið hefur greitt mjög háar arðgreiðslur til hluthafa síðustu tvö ár. Á sama tíma hafa laun starfsfólks ekki haldið í við verðbólgu.
Fulltrúar stéttarfélagsins breska heimsóttu Eflingu stéttarfélag og sögðu frá baráttu sinni fyrir mannsæmandi kjörum á trúnaðarmannanámskeiði Eflingar síðastliðinn fimmtudag. Trúnaðarmenn Eflingar senda félögum sínum í Unite hlýjar baráttukveðjur og standa með þeim í baráttu þeirra.
Unite hefur skipulagt fleiri aðgerðir á Íslandi á næstu vikum og mun Efling aðstoða kollega sína eftir fremst megni í þeim efnum. Áfram Unite og starfsfólk Bakkavör!