Dregið hefur verið verulega úr fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Þetta má sjá þegar rýnt er í tillögur að breytingum á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025, en þær voru lagðar fram og kynntar síðastliðinn mánudag. Er það mikið fagnaðarefni fyrir verkafólk en lífeyrissjóður þess, Gildi, ber mestar byrðar lífeyrissjóða í þessum efnum vegna hærri tíðni örorku meðal erfiðisvinnufólks.
Þegar fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar var lagt fram á Alþingi 10. september síðastliðinn var í því að finna áform um að leggja af framlag til jöfnunar á örorkybyrði lífeyrissjóða á tveimur árum. Í því samhengi voru sett fram áform um að skera stórlega niður framlagið á fjárlögum næsta árs, um tæplega 4,7 milljarða króna.
Þessu mótmælti Efling af hörku ásamt meðal annars Alþýðusambandinu og lífeyrissjóði verkafólks, Gildi. Ef niðurskurðurinn hefði náð fram að ganga hefði hann bitnað harðast á Gildi og lækka hefði þurft réttindi sjóðfélag um um það bil 5 prósent.
Stjórn Eflingar samþykkti ályktun þar sem áformunum var harðlega mótmælt. Með niðurskurðinum væri verið að seilast í vasa verkafólks, án nokkurs samráðs eða annarra umbóta til að jafna réttindstöðu stétta innan lífeyriskerfisins. Þeir fimm sjóðir sem bera mestu byrðina þyrftu að halda minnst fullu örorkuframlagi áfram.
„Ef þessi áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir til fulls þá mun stjórn Eflingar, samninganefnd og trúnaðarráð mæta því af fullum þunga,“ sagði jafnframt í ályktuninni.
Framlag ríkisins á fjárlögum yfirstandandi árs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna nemur um 7,2 milljörðum króna. Í upphaflegu fjárlagafrumvarpi stóð til að skera þá upphæð niður í 2,5 milljarða króna. Í tillögum að breytingum að frumvarpinu, sem kynntar voru á mánudaginn var, er hins vegar búið að bæta tveimur milljörðum króna við málaflokkinn, og verður framlag ríkisins því 4,5 milljarðar króna til málaflokksins á næsta ári, verði frumvarpið svo breytt samþykkt.
Það stendur því enn til að skera framlag ríkisins niður en hins vegar dugar 4,5 milljarða króna framlag til að halda fullu framlag til þeirra fimm lífeyrissjóða sem hafa mesta örorkubyrði. Talsmenn lífeyrissjóðanna og Alþýðusambandið höfðu þegar samþykkt að skera mætti niður framlag til þeirra sjóða sem ekki bera teljandi byrði vegna örorku. Því ber að fagna að náðst hafi að verja stöðu þeirra sjóða sem mesta örorkubyrði bera, til góða fyrir meðal annars sjóðsfélaga Gildis, verkafólk á Íslandi.