Vekja athygli á baráttu verkafólks í Bretlandi gegn Bakkavör

Fulltrúar frá breska stéttarfélaginu Unite the Union komu í morgun til Íslands og funduðu með starfsfólki Eflingar stéttarfélags. Sá fundur var þó ekki megin tilgangur ferðarinnar. Félagar í stéttarfélaginu standa nú í verkfallsaðgerðum gegn Bakkavör og er tilgangur ferðar þeirra hingað til lands að vekja athygli almennings á þeim aðgerðum og baráttu félagsfólks í Unite the Union sem starfar í verksmiðju Bakkavarar.

Bakkavör er sem kunnugt er í helmingseigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, sem gjarnan eru kenndir við fyrirtækið sem þeir stofnuðu upphaflega árið 1986. Meðal annars rekur Bakkavör verksmiðju í Spalding í Englandi þar sem framleidd eru matvæli sem seld eru í smásölu hjá verslunarkeðjum á borð við Tesco. Um 400 félagar í Unite the Union sem vinna í verksmiðjunni hafa verið í verkfalli frá 27. september síðastliðnum til að krefjast hærri launa. 

Fulltrúar Unite the Union munu mótmæla óbilgirni Bakkavarar í kjaradeilunni með ýmsum hætti hér á landi. Þau hittu í dag Viðar Þorsteinsson, sviðsstjóra fræðslu- og félagssviðs Eflingar, og Karl Héðinn Kristjánsson, starfsmann sviðsins. Þá stefna fulltrúar Unite the Union á að hitta trúnaðarmenn Eflingar á námskeiði morgundagsins. 

Eflingu er sönn ánægja að geta stutt við baráttu systurfélaga okkar í nágrannalöndunum, ekki síst þegar um er að ræða íslenska atvinnurekendur.