ASÍ og BSRB standa fyrir fundi með formönnum þeirra stjórnmálahreyfinga sem bjóða fram lista við alþingiskosningarnar 30. nóvember næstkomandi. Fundurinn verður haldinn á Hótel Hilton Reykjavík Nordica næstkomandi mánudag, 18. nóvember, á milli klukkan 17:00 og 19:00.
Allir formenn þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu hafa staðfest komu sína á fundinn, sem ber yfirskriftina Samfélag á krossgötum. Þar munu frambjóðendurnir sitja fyrir svörum um stefnu í þeim málefnum sem varða launafólk á íslandi.
Eftirfarandi meginstef verða rauði þráðurinn í umræðunum:
- Afkoma heimilanna
- Velferðarkerfið og félagslegir innviðir
- Jöfn tækifæri og möguleikar
Pallborði stýra þau Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Fundurinn er opin öllum og boðið verður upp á léttar veitingar. Þá stendur jafnframt til að streyma fundinum fyrir þau sem ekki eiga kost á að sækja hann.
Efling stéttarfélag hvetur félagsfólk sitt til að sækja fundinn, eigi það þess kost. Fundargestir munu eiga þess kost í einhverju mæli að koma sjónarmiðum og spurningum á framfæri og því er full ástæða fyrir Eflingarfélaga að þinga frambjóðendur um svör við því sem á þeim brennur.