AFL varar Virðingu við að láta sjá sig á Austurlandi

11. 12, 2024

AFL Starfsgreinafélag á Austurlandi fordæmir alla tilburði atvinnurekenda í þá veru að stofna eigin stéttarfélög og þvinga verkafólk til þátttöku í þeim. „Svokallaður kjarasamningur félagsins [Virðingar] ber þess skýrt merki að þar sátu fulltrúar launagreiðenda hringinn í kringum borðið og sömdu við sjálfa sig um hvaða kjör þeir hyggjast bjóða starfsfólki,“ segir í yfirlýsingu AFLs, sem lýsir fullum stuðningi við baráttu Eflingar. 

Yfirlýsing vegna gerfistéttarfélagsins Virðingar

AFL Starfsgreinafélag fordæmir alla tilburði launagreiðanda til að stofna eigin stéttarfélag og þvinga starfsfólk til þátttöku í þeim. Gerfistéttarfélagið Virðing er skýrt dæmi um félagsleg undirboð og misneytingu launagreiðenda. Svokallaður kjarasamningur félagsins ber þess skýrt merki að þar sátu fulltrúar launagreiðenda hringinn í kringum borðið og sömdu við sjálfa sig um hvaða kjör þeir hyggjast bjóða starfsfólki.

AFL Starfsgreinafélag lýsir fullum stuðningi við baráttu Eflingar við þessi launagreiðendasamtök á höfuðborgarsvæðinu og Einingar Iðju við sömu samtök á Eyjafjarðarsvæðinu.

AFL mun fylgjast grannt með ástandi í veitinga- og gistihúsaumhverfinu á félagssvæði sínu og grípa til harðra aðgerða ef þetta gerfifélag gerir vart við sig á svæðinu.