Efling boðar aðgerðir gegn 100 veitingastöðum í SVEIT

Efling stéttarfélag hefur sent erindi á forsvarsfólk 108 veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu, sem samkvæmt nýjustu tiltæku upplýsingum Eflingar eru aðilar að SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði. Í erindinu er forsvarsfólki veitingastaðanna gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem Efling hyggst grípa til vegna svokallaðs kjarasamnings SVEIT við gervistéttarfélagið Virðingu, sem SVEIT stendur sjálft að baki. 

Efling hefur undir höndum félagatal SVEIT sem dagsett er 11. september 2023. Það félagatal var lagt fram vegna dómsmáls SVEIT á hendur Eflingu fyrir Félagsdómi, sem SVEIT tapaði. Í erindi Eflingar, sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður undirritar, eru forsvarsmenn veitingastaðanna beðnir um að senda tilkynningu til Eflingar séu þeirra fyrirtæki ekki lengur aðilar að SVEIT. 

Svo sem áður hefur verið greint skilmerkilega frá er Virðing gervistéttarfélag, stýrt af atvinnurekendum úr röðum SVEIT og nánum fjölskyldumeðlimum þeirra, en ekki verkafólki. Svokallaður kjarasamningur milli Virðingar og SVEIT er, fyrir utan að samrýmast ekki ákvæðum íslenskra laga, til þess gerður að skerða réttindi starfsfólks til hagsbóta fyrir atvinnurekendur. 

Vegna þessa mun Efling grípa til margþættra aðgerða sem snúa bæði beint að SVEIT og einstökum aðildarfyrirtækjum SVEIT. Eru þær aðgerðir nánar raktar í erindi Eflingar sem fer hér að neðan. 

Erindi Eflingar til veitingastaða í SVEIT

Reykjavík, 10. desember 2024 

Efni: Aðild fyrirtækis þíns að SVEIT og aðgerðir Eflingar því fylgjandi 

Efling – stéttarfélag hefur undir höndum félagatal Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) dagsett 11.9.2023. Félagaskráin var lögð fram af SVEIT vegna dómsmáls sem samtökin höfðuðu í Félagsdómi á hendur Eflingu og töpuðu.  

Samkvæmt félagatali þessu, sem eru nýjustu tiltæku upplýsingar Eflingar, er ofangreint fyrirtæki þitt meðlimur í SVEIT. Ég biðst fyrirfram velverðingar séu þær upplýsingar ekki réttar. Sé fyrirtæki þitt ekki lengur aðili að SVEIT bið ég þig að senda tilkynningu þess efnis við fyrsta tækifæri á netfang mitt solveiganna@efling.is og bið ég þig þá jafnframt að hunsa erindi þetta. 

SVEIT stendur á bak við félagið “Virðing” sem kynnt hefur verið ranglega sem stéttarfélag. Í stjórn “Virðingar” sitja atvinnurekendur úr röðum SVEIT og nánir fjölskyldumeðlimir þeirra. “Virðing” er ekki stéttarfélag heldur sýndargjörningur settur upp í þeim tilgangi að blekkja starfsfólk í veitingageiranum til að samþykkja lægri kjör en þeim ber samkvæmt kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins (SA). 

“Virðing” hefur undirritað svokallaðan kjarasamning við SVEIT dags. 25.10.2024 þar sem laun starfsfólks á veitingahúsum fara undir þann lágmarksrétt sem kveðið er á um í kjarasamningi Eflingar og SA, réttindi þeirra skert í ótal atriðum og gengið gegn ákvæðum laga sem tryggja réttindi starfsfólks varðandi orlof, veikindi o.fl. 

Efling hefur gert opinberlega grein fyrir öllu ofangreindu, m.a. á vefsíðu félagsins www.efling.is, og reikna ég með að umfjöllun í fjölmiðlum þar að lútandi hafi ekki farið fram hjá þér. 

Vegna þessa mun Efling grípa til aðgerða sem snúa bæði að SVEIT og að einstökum aðildarfyrirtækjum SVEIT. Þessar aðgerðir munu m.a. fela í sér eftirfarandi: 

  • Könnun á lagalegum grundvelli þess að kæra einstök aðildarfyrirtæki SVEIT til lögreglu, með vísan til ákvæða 26. kafla almennra hegningarlaga um auðgunarbrot. Brot á ákvæðum þessum geta varðað fangelsi allt að sex árum. 
  • Opinber birting á nöfnum og vörumerkjum aðildarfyrirtækja SVEIT. 
  • Auglýsingaherferð þar sem sérstök áhersla verður lögð á að birta nöfn og vörumerki aðildarfyrirtækja SVEIT. 
  • Heimsóknir á vettvang þar sem starfsfólk aðildarfyrirtækja SVEIT verður upplýst um árásir SVEIT á launakjör og réttindi þeirra og upplýst um aðild viðkomandi fyrirtækis að SVEIT.  
  • Aðgerðir á vettvangi þar sem viðskiptavinir aðildarfyrirtækja SVEIT verða upplýstir um árásir SVEIT á launakjör og réttindi starfsfólks og upplýstir um aðild viðkomandi fyrirtækis að SVEIT. 
  • Stuðningur við mótmæli og lögmæta andspyrnu starfsfólks aðildarfélaga SVEIT á vettvangi gegn hvers kyns árásum SVEIT á launakjör og réttindi starfsfólks. 
  • Stuðningur við allt starfsfólk veitingahúsa, hvort sem það hefur greitt til iðgjöld til Eflingar eða ekki, við gerð launakrafna þar sem krafist verður greiðslu launa í samræmi við löglegan samning Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Slíkum kröfum verður fylgt eftir fyrir dómstólum og mun Efling birta opinberlega nöfn þeirra fyrirtækja sem svíkja starfsfólk um laun með þessum hætti. 

Sólveig Anna Jónsdóttir 
formaður Eflingar – stéttarfélag