Hegðun atvinnurekenda í SVEIT forkastanleg að mati BHM og BSRB

BHM og BSRB hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau taka undir gagnrýni Eflingar stéttarfélags, Eflingar-Iðju og Alþýðusambands Íslands, auk annarra stéttarfélaga, varðandi gervistéttarfélagið „Virðingu“.

Í yfirlýsingunni gagnrýna bandalögin hvernig SVEIT og Virðing hafi með einu pennastriki samið burt réttindi verkafólks, með eigin hagsmuni að leiðarljósi, með svoköllum kjarasamaningi sín á milli. 

„Þá er félagsgjald í gervistéttarfélagið sambærilegt við félagsgjald í önnur stéttarfélög. Engu að síður virðist félagsfólk þess ekki ávinna sér sambærileg réttindi í sjúkrasjóði eða rétt til fræðslustyrkja eða annarra styrkja.

Það er forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks í eiginhagsmunaskyni,“ segir í yfirlýsingu bandalaganna tveggja. Hana má lesa hér, á vefsíðu BHM, í heild sinni. 

Ef starfsfólk í veitingageiranum telur að það hafi orðið fyrir barðinu á svikamyllu Virðingar og SVEIT hvetur Efling það eindregið til að hafa samband. Það má gera á tilkynningasíðu sem er að finna hér.