Kjarasamingur Virðingar og SVEIT andstæður lögum – Laun og réttindi mun lakari 

Trúnaðarmenn Eflingar hafa síðustu viku unnið þrekvirki við að vekja athygli á svikastarfsemi Virðingar og SVEIT.

Kjarasamningur Virðingar við SVEIT gengur gegn ákvæðum fjölda laga og fullnægir ekki öðrum lagaákvæðum, auk þess sem færa má fyrir því sannfærandi rök að hann brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Launataxtar samkvæmt kjarasamningnum verða lægri en launataxtar samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA frá og með 1. febrúar 2025. Ofan á það leiða breytingar á vinnutíma og vaktaálagi í samningi Virðingar og SVEIT almennt til kjaraskerðingar, miðað við samning Eflingar og SA. 

Efling hefur lagt mat á kjarasamning Virðingar og SVEIT og borið saman við ákvæði samnings Eflingar og SA frá því í vor. Niðurstaðan er að fyrrnefndi kjarasamningurinn er ósamrýmanlegur við lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem og lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

Þá eru jafnframt ákvæði í samningnum sem kunna að vera gagnstæð eða fullnægja ekki skilyrðum ýmissa laga. Þar á meðal eru lög um rétt verkafólks til uppsagnarréttar og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla; lög um 40 stunda vinnuviku; lög um orlof; lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. 

Launataxtar Eflingar hærri

SVEIT hélt því fram í tilkynningu til fjölmiðla í gær, 5. desember, að kjarasamningur samtakanna og Virðingar inniberi hærri grunnlaunataxta en stöðugleikasamningur Eflingar og SA frá því í vor. Rétt er að launataxtar samkvæmt samningi Virðingar og SVEIT eru nú eilítið hærri. Þeir verða hins vegar orðnir lægri þegar samningsbundin launahækkun tekur gildi í febrúar. Samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA taka launahækkanir gildi í febrúar ár hvert, á meðan að launahækkanir samkvæmt kjarasamningi Virðingar og SVEIT taka gildi í nóvember ár hvert.

Því verða launataxtar samkvæmt samningi Virðingar og SVEIT lægri en launataxtar Eflingar og SA frá 1. febrúar til 1. nóvember 2025, í níu mánuði. Hið sama á við um árið 2026, í febrúar það ár verða taxtar Eflingar og SA aftur hærri og haldast hærri út samningstímann. 

Dagvinnukaup á laugardögum er brot á lögum

Í ákvæði kjarasamnings Virðingar og SVEIT um vinnutíma er dagvinna skilgreind frá 08:00-20:00, þremur tímum lengur en í kjarasamningi Eflingar og SA en þar lýkur dagvinnutímabili klukkan 17:00. Þá hefur því verið bætt við í kjarasamningi Virðingar og SVEIT að vinna frá 08:00-16:00 á laugardögum teljist til dagvinnutíma. Það er bæði í ósamræmi við gildandi lágmarksrétt og einnig brot á lögum um 40 stunda vinnuviku frá árinu 1971, þar sem gert er ráð fyrir að dagvinnutímabil miði við virka daga. 

Vaktaálag Virðingar mun lægra

Eins og gefur að skilja er því verulegur munur á launagreiðslum í vaktavinnu þegar horft er á samningana tvo. Vaktaálag samkvæmt kjarasamningi Virðingar og SVEIT er þannig ekkert á tímabilinu 17:00-20:00 á virkum dögum og ekkert yfir daginn á laugardögum á meðan að það er 33% á þessum tímum samkvæmt kjarasamningi Eflingar.

Enn fremur er vaktaálag lægra í fyrrnefnda samningnum í öllum tilfellum nema þegar kemur að næturvinnu. Þannig er vaktaálag á virkum dögum á tímabilinu 20:00-24:00 31% í kjarasamningi Virðingar og SVEIT en er 33% í kjarasamningi Eflingar og SA. Ekkert vaktaálag er eins og fyrr segir greitt á laugardögum frá 08:00-16:00 í samningi Virðingar og SVEIT en það er hins vegar 45% í kjarasamningi Eflingar og SA. Á tímabilinu 16:00-24:00 á laugardögum og 08:00-24:00 á sunnudögum er vaktaálag samkvæmt Virðingarsamningnum 31% en er 45% samkvæmt Eflingarsamningnum.

Þá er gert ráð fyrir 55% álagi í samningi Eflingar og SA fyrir næturvinnu um helgar frá 24:00-05:00 en vaktaálag á sömu tímum er samkvæmt samningi Virðingar og SVEIT 45%. 

Þar sem fjallað er um álag á helgi- og stórhátíðardögum er skírdags hvergi getið sem er brot gegn lögum um 40 stunda vinnuviku. 

Lakari réttur til desemberuppbótar

Í kjarasamningi Eflingar og SA er tekið fram að desemberuppbót greiðist til þeirra sem annað hvort hafi verið í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða séu í starfi fyrstu vikuna í desember. Þetta er þrengt í kjarasamningi SVEIT og Virðingar þar sem ekki er vísað til seinna tilviksins.

Líklega brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár

Skilgreiningin í kjarasamningi Virðingar og SVEIT á þjálfunartíma er útvíkkuð og í raun gerð að einfaldri aldursmismunun. Ákvæðið segir að nýir starfsmenn á aldrinum 18-21 árs fái greidd sem nemur 95% af heildarlaunum. Þannig getur „þjálfunartími“ hjá ungum starfsmanni orðið allt að þrjú ár að lengd. Í kjarasamningi Eflingar og SA er hins vegar gert ráð fyrir að þjálfunartími geti verið mest 500 klst. og mest 300 klst. hjá sama atvinnurekanda.

Þá má velta því upp hvort að ákvæði þetta í samningi Virðingar og SVEIT samrýmist annars vegar lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og hins vegar jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. 

Veikari ákvæði um hvíldartíma

Þar sem fjallað er um hvíldartíma í kjarasamningi Virðingar og SVEIT er ekki lagt bann við að skipuleggja vinnutíma þannig að hann fari umfram 13 klukkustundir, ólíkt því sem er í kjarasamningi Eflingar og SA. Þá er ekki heldur ákvæði um að óheimilt sé að skerða 8 klukkustunda samfellda hvíld né að vinnulotu megi aðeins lengja í 16 klukkustundir. Eins er ekki tekið fram að uppsafnaður frítökuréttur skuli koma fram á launaseðli. 

Orlofsréttindi Eflingar mun betri

Þar sem fjallað er um orlof í kjarasamningi Virðingar og SVEIT er ekki kveðið á um að starfsmaður ávinni sér orlof umfram hið lögbundna lágmark, sem eru 24 dagar á ári. Í kjarasamningi Eflingar og SA hefur hins vegar verið samið um verulega betri orlofsréttindi en hið lögbundna lágmark, sér í lagi hvað varðar fjölda orlofsdaga. Þannig á starfsfólk sem hefur náð 22 ára aldri og hefur unnið í hálft ár hjá sama fyrirtæki rétt á 25 daga orlofi á næsta ári. Starfsmaður sem unnið hefur í fimm ár hjá sama fyrirtæki á rétt á 26 dögum í orlof.

Orlofsréttur eykst enn árið 2026 í kjarasamningi Eflingar en þá á starfsmaður með fimm ára starf að baki hjá sama fyrirtæki rétt á orlofi í 28 virka daga. Þá hefur 30 daga orlofsréttur þeirra sem starfað hafa í 10 ár afnuminn í samningi Virðingar.

Atvinnurekandi getur skipað starfsmanni í orlof samkvæmt samningi Virðingar

Í samningi Virðingar og SVEIT segir þá að starfsmanni sé skylt að taka orlof ef yfirmaður hans skipar svo. Velta má upp hvort ákvæðið gangi gegn ákvæðum laga um orlof  þar sem kveðið er á um að atvinnurekandi ákveði í samráði við starfsmann hvenær orlof skuli veitt. 

Foreldrar réttlausir fyrsta hálfa árið

Í ákvæði um veikindi barna í samningi Virðingar og SVEIT eru foreldrar réttindalausir hvað varðar rétt til að hlynna að sjúkum börnum sínum fyrstu sex mánuðina í starfi hjá sama atvinnurekanda. Eftir sex mánuði í starfi er foreldrum heimilt að verja 12 vinnudögum á hverju 12 mánaða tímabili til að hlynna að börnum sínum, undir 13 ára aldri.

Í kjarasamningi Eflingar og SA er foreldrum hins vegar tryggður réttur til að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar sjúkum börnum sínum, frá upphafi starfa og til sex mánaða í starfi. Eftir það breytist rétturinn í 12 vinnudaga á hverju 12 mánaða tímabili. 

Ekki fjallað um greiðslu sjúkrakostnaðar í kjarasamningi Virðingar

Þá er í ákvæði um sjúkra- og flutningskostnað í samningi Virðingar og SVEIT aðeins tilgreint að atvinnurekandi kosti flutning á sjúkrahúss eða heilsugæslu ef nauðsyn krefur, verði starfsmaður fyrir vinnuslysi. Ekkert er fjallað um greiðslu sjúkrakostnaðar líkt og er gert í kjarasamningi Eflingar og SA. 

Vísað til brottfelldra laga um fæðingarorlof

Í ákvæði kjarasamnings Virðingar og SVEIT er lýtur að fæðingarorlofi er vísað til eldri laga um fæðingar- og foreldraorlof frá árinu 2000, sem felld hafa verið úr gildi Þá er ekki kveðið um rétt starfsfólks til að fara í mæðraskoðun á vinnutíma án frádráttar frá föstum launum. Um slíkt er kveðið á í kjarasamningi Eflingar og SA, sem og öðrum kjarasamningum.

Þá er ekki fjallað um, í kjarasamningi Virðingar og SVEIT, að eftir eins árs starf hjá sama atvinnurekanda teljist lögbundnar fjarvistir vegna fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar, líkt og í kjarasamningi Eflingar og SA.  

Brotið gegn Evrópu-tilskipun

Ákvæði um ráðningarsamninga í kjarasamningi Virðingar og SVEIT ekki í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um upplýsingar um ráðningarkjör. Sú tilskipun tók gildi hér á landi árið 1997 og hefur verið tekin upp í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ.

Þá er í ákvæði kjarasamningsins ekki kveðið á um að staðfesta skuli breytingar á ráðningarkjörum starfsfólks skriflega. Heilt yfir eru talsvert minni skyldur lagðar á atvinnurekendur í ákvæðinu heldur en þær sem gilda í kjarasamningi Eflingar og SA. 

Uppsagnarfrestur skertur í samningi Virðingar

Sömuleiðis er uppsagnarfrestur lakari í kjarasamningi Virðingar og SVEIT heldur en samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA. Þannig er ekki kveðið á um það í kjarasamningi Virðingar og SVEIT að uppsagnarfrestur miðist við mánaðamót, ólíkt því sem er í kjarasamningi Eflingar og SA.

Uppsagnarfrestur eftir þrjá mánuði í starfi er samkvæmt kjarasamningi Virðingar og SVEIT 12 almanaksdagar, en er í kjarasamningi Eflingar og SA 1 mánuður. Eftir tveggja ára starf er uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi Virðingar og SVEIT 1 mánuður en í samningi Eflingar og SA er hann 2 mánuðir. Eftir tíu ára starf er uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi Virðingar og SVEIT 3 mánuðir en í kjarasamningi Eflingar og SA er kveðið á um að hann sé 4 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir ef hann er orðinn 63 ára. 

Ekki er kveðið á um, í kjarasamningi Virðingar og SVEIT, að sé starfsmaður færður úr starfi sem hann hefur verið ráðinn til í annað starf með nýjum kauptaxta skuli hann halda fyrri kauptaxta út uppsagnarfrest.  

Réttur trúnaðarmanna skertur

Í ákvæði kjarasamnings Virðingar og SVEIT um trúnaðarmenn er vísað til ákvæða laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Í kjarasamningum Eflingar og SA frá því síðastliðið vor er hins vegar að finna mun ríkari rétt fyrir trúnaðarmenn, til að mynda að þeim sé heimilt að verja tíma til trúnaðarmannastarfa, þeim skuli útbúin aðstaða, þeir hafi aðgang að gögnum og þeir hafi heimild til að sækja trúnaðarmannanámskeið á vinnutíma. 

Ekki fæst þá séð af samþykktum Virðingar að starfrækja eigi sjúkrasjóð eða starfsmenntasjóð, eins og stéttarfélög gera, aðeins orlofssjóð.

Ef atvinnurekandi hefur látið, eða reynt að láta, félaga í Eflingu skrifa undir ráðningarsamning þar sem vísað er til svikasamnings Virðingar og SVEIT, eða ef félagar í Eflingu telja verið sé að greiða þeim laun eftir svikasamningnum, ættu þeir tafarlaust að hafa samband við Eflingu. Það er hægt að gera á tilkynningasíðu sem má finna hér.