LÍV skorar á heiðarlega atvinnurekendur að hafna aðferðarfræði Virðingar og SVEIT

Stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna segir starfsemi gervistéttarfélagsins Virðingar grafa undan grundvallar reglum á íslenkum vinnumarkaði, sem í gildi hafi verið um áratugaskeið. Verslunarmenn lýsa í ályktun yfir fullum stuðningi við baráttu Eflingar gegn hinu gula stéttarfélagi og hvetur stjórnin aðildarfélög sín til að „grípa til harðra viðbragðra gegn þessari aðför að launafólki“. 

Ályktun stjórnar LÍV um gervistéttarfélagið „Virðingu“

Reykjavík, 9. desember 2024

Stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna tekur undir ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og lýsir yfir fullum stuðningi við SGS og Eflingu stéttarfélag í baráttu gegn stéttarfélaginu „Virðingu“, sem brýtur gegn grundvallar leikreglum íslensks vinnumarkaðar og vinnur að skerðingu á réttindum og kjörum starfsfólks í veitingageiranum.

Stjórn LÍV bendir á að „Virðing“ sé dæmi um „gul stéttarfélög“, þar sem atvinnurekendur stjórna félaginu til að semja við sjálfa sig. Félagið þjónar hagsmunum atvinnurekenda innan samtaka SVEIT og felur kjarasamningur þess í sér lækkun launa og skerðingu á réttindum, t.d. varðandi veikindarétt, orlof og sjúkrasjóð. Slíkar aðgerðir grafa undan réttindabaráttu sem byggð hefur verið upp í áratugi og gengur gegn grundvallar reglum á íslenskum vinnumarkaði sem verið hafa í gildi um áratuga skeið.

LÍV skorar á heiðarlega atvinnurekendur að hafna slíkri aðferðarfræði og hvetur aðildarfélög sín til að grípa til harðra viðbragða gegn þessari aðför að launafólki. Stjórn LÍV undirstrikar mikilvægi þess að bæði atvinnurekendur og launafólk virði þær grunn reglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, virði löglega kjarasamninga og lýsir yfir skilyrðislausri samstöðu með starfsfólki í veitingageiranum í baráttu fyrir bættum kjörum og réttindum. Félög innan LÍV séu reiðubúin að bregðast við slíkum árásum með öllum tiltækum úrræðum.

Ef starfsfólk í veitingageiranum telur að það hafi orðið fyrir barðinu á svikamyllu Virðingar og SVEIT hvetur Efling það eindregið til að hafa samband. Það má gera á tilkynningasíðu sem er að finna hér.