Endurnýjun á húsnæði Eflingar hafin – Bylting fyrir félaga og starfsfólk

Algjör endurnýjun á húsnæði Eflingar stéttarfélags stendur fyrir dyrum á næstu mánuðum sem mun, að verkinu loknu, gjörbylta aðstöðu starfsfólks og þjónustu við félagsfólk. Þannig verður móttökurými skrifstofunnar umbylt og það lagað að nútímanum, með auknum þægindum og aðlaðandi umhverfi. Sömuleiðis verður viðtalsaðstaða bætt verulega með næði og góðu aðgengi í forgangi. 

Skrifstofuhúsnæði Eflingar í Guðrúnartúni 1 var tekið í notkun árið 1999 en viðbygging var byggð við húsið árið 2012. Innra byrði húsnæðisins, skrifstofurými og móttaka þar á meðal, var hannað með þær þarfir sem þá voru til staðar, og einnig þá starfshætti sem þá tíðkuðust. Með þeim breytingum sem orðið hafa á starfseminni undanfarinn aldarfjórðung, þar á meðal verulega aukna rafræna þjónustu, er orðið aðkallandi að gera breytingar á húsnæðinu. 

Hönnunarferlið hefur staðið um nokkurra missera skeið en það eru Nordic Architecture sem hafa unnið að því í þéttu samstarfi við stjórnendur Eflingar og starfsfólk. Samið hefur verið við verktakafyrirtækið Sérverk um framkvæmdina og hefst uppbygging á næstunni. Niðurrif innra byrðis í hluta húsnæðisins er þegar hafið en hefur ekki áhrif á móttöku félagsfólks. 

Hins vegar mun reynast nauðsynlegt að loka núverandi móttöku Eflingar á hluta verktímans, að öllum líkindum í febrúar og mars mánuðum. Mun þá móttaka Eflingar færast upp á 4. hæð í Guðrúnartúni og gera má ráð fyrir að biðtími eftir afgreiðslu gæti lengst eilítið á meðan á því stendur, sökum þess að móttökurými er þar þrengra en nú er. Starfsfólk Eflingar mun kappkosta að sem minnst röskun verði á starfseminni á þeim tíma. Félagsfólk verður upplýst frekar um þær breytingar sem kunna að verða á þegar nær dregur. 

Áætluð verklok eru í júlí 2025 og mun þá öll aðstaða í húsnæðinu verða eins og best verður á kosið, til hagsbóta fyrir starfsfólk og félaga í Eflingu.