Tæpur þriðjungur veitingastaða hefur sagt sig úr SVEIT

Forsvarsfólk alls 35 veitingastaða hafa staðfest við Eflingu stéttarfélag að þau hafi sagt fyrirtæki sín úr SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði. Drjúgur helmingur allra þeirra veitingastaða sem Efling hafði samband við hafa svarað erindi félagsins og lýst því að þar verði lögmætur kjarasamningur Eflingar og Samtaka atvinnulífsins virtur.

Efling sendi forsvarsfólki 108 veitingastaða bréf síðastliðinn þriðjudag, 10. desember, þar sem það var upplýst um að samkvæmt nýjustu handbæru upplýsingum félagsins væru fyrirtæki þeirra aðilar að SVEIT. Í bréfinu voru tíundaðar þær aðgerðir sem Efling hyggst ráðast í gegn SVEIT og einstökum aðildarfyrirtækjum, vegna hins ólögmæts kjarasamnings milli SVEIT og gervistéttarfélagsins Virðingar.

Eftir að hafa fengið nýrri upplýsingar um félagatal SVEIT sendi Efling þá bréf á 15 fyrirtæki til viðbótar. Alls hafa því 123 fyrirtæki fengið umrætt bréf frá Eflingu. Send hefur verið út ítrekun á þau fyrirtæki sem enn hafa ekki svarað. 

Um miðjan dag í dag, 13. desember, höfðu borist svör frá yfir helmingi allra fyrirtækjanna, alls 74 veitingastöðum. Af þeim greindu 35 fyrirtæki frá því að þau hefðu nú þegar sagt sig úr SVEIT og myndu fylgja löglegum kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Það jafngildir 28 prósentum allra þeirra fyrirtækja sem Efling sendi bréfið til.

Til viðbótar hafa 35 önnur fyrirtæki svarað bréfinu og lýst því að þau muni fylgja kjarasamningi Eflingar, þó þau séu enn aðilar að SVEIT. Samanlagt hafa því 57 prósent allra fyrirtækjanna greint Eflingu frá því að þau muni virða kjarasamning félagsins. 

Efling lýsir ánægju sinni með þessi viðbrögð og hvetur þau fyrirtæki sem enn hafa ekki svarað jafnframt til að gera það hið fyrsta, á sömu nótum og þau sem þegar hafa svarað.