Stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar og samningur þess við SVEIT, þar sem atvinnurekendur eru að reyna að semja við sjálfa sig, er ömurleg framkoma við starfsfólk í veitingageiranum. Þetta segir í ályktun Fagfélaganna, Byggiðn – Félags byggingamanna; MATVÍS – Félags iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum; RSÍ – Rafiðnaðarsambands Íslands og aðildarfélaga, og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Fagfélögin taka heilshugar undir málflutning Eflingar varðandi gervistéttarfélagið Virðingu og skora á starfsfólk í veitingageiranum að hafna aðilda að félaginu. Enn fremur skora Fagfélögin á Virðingu til að láta af tilraunum sínum til félagslegra undirboða.
Virðingarleysi og félagsleg undirboð
Fagfélögin fordæma harðlega tilraunir hóps veitingamanna til að grafa undan þeim árangri sem önnur alvöru stéttarfélög hafa unnið baki brotnu að fyrir hönd launafólks undanfarna áratugi. Fagfélögin taka heilshugar undir málflutning Eflingar og ASÍ í þessu máli.
Stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar og kjarasamningur félagsins við SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, er aðför að kjarabaráttu og réttindum starfsfólks í veitingageiranum. ASÍ hefur bent á að í Virðingu séu í það minnsta tveir stjórnarmenn sem komi beint að rekstri veitingastaða sem starfi innan SVEIT. Atvinnurekendur eru þannig að reyna að semja við sjálfa sig. Það eitt og sér er ömurleg framkoma við starfsfólk.
Í þeim kjarasamningi sem umræddir veitingamenn hafa gert við sjálfa sig felast skert launakjör, lenging dagvinnutíma, lægra álag vegna kvöldvakta og niðurfærsla orlofsréttinda svo eitthvað sé nefnt. Allt ber þetta að þeim brunni að níðast á launafólki í veikri stöðu; mest ungu fólki og innflytjendum.
Skemmst er að minnast þess að SVEIT hefur, í þeirri viðleitni að rýra kjör starfsfólks í veitingageiranum, árangsurslaust reynt að hafa samningsréttinn af Samtökum atvinnulífsins.
Fagfélögin skora á starfsfólk í veitingageiranum að hafna aðild að gervistéttarfélaginu Virðingu og láta ekki undan þrýstingi vinnuveitenda þar að lútandi. Enn fremur skora Fagfélögin á aðstandendur Virðingar að láta af tilraunum sínum til félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði.
Ef starfsfólk í veitingageiranum telur að það hafi orðið fyrir barðinu á svikamyllu Virðingar og SVEIT hvetur Efling það eindregið til að hafa samband. Það má gera á tilkynningasíðu sem er að finna hér.