VR segir framkomu SVEIT og Virðingar svívirðilega

Stjórn VR hefur sent frá sér ályktun þar sem atlaga atvinnurekenda innan SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkið, að réttindum og kjörum launafólks er fordæmd. Virðing sé gult stéttarfélag sem SVEIT hafi stofnað og svokllaður kjarasamningur þeirra á milli feli í sér beinar kjaraskerðingar. 

Stjórn VR tekur heilshugar undir gagnrýni Eflingar og SGS á SVEIT og hvatningu um að sniðganga félagið í ályktuninni. „Framkoma Virðingar og SVEIT er að mati stjórnar VR svívirðileg atlaga að réttindum launafólks og markar afturför í kjarabaráttu. Stjórn VR hvetur launafólk sem og atvinnurekendur til að hafna þessari atlögu. Samstaða á vinnumarkaði er mikilvæg þegar kemur að því að standa vörð um grundvallarréttindi launafólks og á það að vera sameiginlegt verkefni aðila vinnumarkaðarins að tryggja þau,“ segir enn fremur í ályktun VR sem lesa má í heild sinni hér.