Félögum í Eflingu stéttarfélagi, sem eiga von á börnum, býðst nú stuðningur til að búa sig undir þær breytingar sem bíða þeirra þegar nýtt líf kemur í heiminn. Í lok mars og byrjun apríl stendur Efling fyrir námskeiði fyrir verðandi foreldra, þar sem þrautreyndir sérfræðingar munu kynna leiðir til að gera þennan spennandi og gleðilega tíma eins áhyggjulausan og ánægjulegan og hugsast getur.
Öllum má vera ljóst að það er áskorun að eignast sitt fyrsta barn og bera allt í einu ábyrgð á litlu lífi. Á námskeiðinu verður því fjallað um tilfinninga- og streitustjórnun, mikilvægi þess að efla og vihalda nánd foreldranna á milli, sem og tengsl í fjölskyldunni allri. Jafnframt verður hinum verðandi foreldrum kynnt hvert hægt er að leita eftir stuðningi fyrstu ár barnsins.
Námskeiðið er fyrir pör sem eiga von á sínu fyrsta barni saman og verður annað þeirra að vera greiðandi félagsmaður í Eflingu. Námskeiðið fer fram laugardagana 29. mars og 12. apríl og er kennt á íslensku og ensku. Námskeiðsgjald er 2.500 krónur og boðið verður upp á morgun- og hádegis hressingu báða dagana.