Fráleitt er að halda því fram að selja þurfi arðsamar eignir þjóðarinnar til að lækka vaxtakostnað, einsog SA-fólk heldur fram. Svo segir í yfirlýsingu stjórnar Eflingar stéttarfélags sem samþykkt var í dag. „Atvinnurekendur og auðmenn ásælast einfaldlega góðar eignir þjóðarinnar til eigin ábata – en ekki í þágu almennings.“
Í yfirlýsingunni er rakið hvernig samtök atvinnurekenda hafa farið geyst fram á völlinn með súpu af tillögum þar sem þeir leggja til við ríkisstjórnina næsta óhefta nýfrjálshyggju. Tillögurnar samanstanda af hugmyndum um einkavæðingu, lækkun skatta á fyrirtæki og fjármagn og niðurskurð á útgjöldum til velferðarmála.
„Efling varar við þessum falsáróðri samtaka atvinnurekenda og fjármálaafla og brýnir ríkisstjórnina að standa fast við loforð sín um samfélagslegar umbætur og nauðsynlega tekjuöflun frá þeim sem eru vel aflögufær. Ekki má leggja auknar byrðar á verka og láglaunafólk, enda engin þörf á því.“
Ályktunin í heild sinni fer hér að neðan.
Atvinnurekendur ásælast eignir þjóðarinnar
Yfirlýsing stjórnar Eflingar
Samtök atvinnurekenda (SA, Viðskiptaráð og samtök kaupmanna) fara mikinn þessa dagana. Þau telja ákall ríkisstjórnarinnar eftir hugmyndum almennings um hagræðingaraðgerðir í opinberum rekstri tilvalið tækifæri til að rifja upp róttækustu hugmyndir nýfrjálshyggjunnar um einkavæðingu, lækkun skatta á fyrirtæki og fjármagn og niðurskurð velferðarútgjalda og launakjara almennings. Þau hafa nú sent risapakka sína þessa efnis til stjórnvalda og básúna boðskapinn ótt og títt í fjölmiðlum.
Í þessum tillögum er að finna margar mótsagnir og veik rök fyrir málstaðnum. Til dæmis segir SA-fólk að Ísland standi einstaklega vel hvað snertir verðmætasköpun (hagvöxt á mann) en segja svo sérstaklega mikla þörf á aukinni samkeppnishæfni fyrirtækja með lækkun skatta, risavaxinni einkavæðingu og niðurskurði opinberra útgjalda og kjara starfsmanna. Þetta er allt með ólíkindum.
Staðreyndin er sú að síðustu þrjú ár hefur verið methagnaður í fyrirtækjum. Þau standa svo vel að nýjum störfum fjölgar alltof hratt, þannig að flytja hefur þurft inn vinnuafl frá útlöndum í miklu magni. Það hefur ásamt öðru sett íbúðamarkaðinn algerlega úr skorðum, með íþyngjandi byrðum verðbólgu og vaxtakostnaðar fyrir heimili launafólks. Ofvöxtur ferðaþjónustunnar hefur aukið einkaneyslu í landinu um of með tilheyrandi hvata á verðbólguna. Almenningur er svo látinn bera þær byrðar með vaxtahækkunum.
Önnur staðreyndin er sú, að skattar á fyrirtæki og fjármagn á Íslandi eru með lægra móti meðal OECD-ríkjanna og útgjöld hins opinbera eru rétt í meðallagi en ekki sérstaklega há. Vaxtagjöld hins opinbera eru há, en ekki vegna sérstaklega mikilla skulda heldur vegna óvenju hárra vaxta á Íslandi núna. Vaxtakostnaður hins opinbera mun lækka þegar vextir lækka.
Það er því fráleitt að selja þurfi arðsamar eignir þjóðarinnar til að lækka vaxtakostnað, einsog SA-fólk heldur fram. Atvinnurekendur og auðmenn ásælast einfaldlega góðar eignir þjóðarinnar til eigin ábata – en ekki í þágu almennings.
Það er heldur engin sérstök þörf á að minnka umsvif eða tekjur hins opinbera, þó eitthvað megi hagræða í útgjöldum. Þvert á móti þurfa fyrirtæki, fjármagnseigendur og þeir sem nýta náttúrulegar auðlindir þjóðarinnar að leggja meira af mörkum til að lagfæra miklar uppsafnaðar innviðaskuldir og velferðarhalla sem berlega kom fram í nýlegum kosningum til Alþingis.
Efling varar við þessum falsáróðri samtaka atvinnurekenda og fjármálaafla og brýnir ríkisstjórnina að standa fast við loforð sín um samfélagslegar umbætur og nauðsynlega tekjuöflun frá þeim sem eru vel aflögufær. Ekki má leggja auknar byrðar á verka og láglaunafólk, enda engin þörf á því.