Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar stéttarfélags hefur sent erindi til sérleyfis veitingakeðjanna Subway IP LLC og Hard Rock Cafe International. Þar er vakin athygli móðurfyrirtækjanna á þátttöku sérleyfishafa þeirra hér á landi í réttindabrotum gegn vinnandi fólki, ólögmætu athæfi og lagabrotum.
Í erindunum bendir Sólveig Anna á að Stjarnan ehf, sem heldur á sérleyfi fyrir Subway á Íslandi, og HRC Ísland ehf, sem heldur á sérleyfi fyrir Hard Rock Cafe á Íslandi, hafi að líkindum bæði tekið þátt í stofnun ólögmæts gervistéttarfélags, sem stýrt sé af atvinnurekendum. Vísar Sólveig Anna þar til þess að bæði fyrirtækin séu aðilar að SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, sem gert hafi ólögmætan kjarasamning við gervistéttarfélagið Virðingu.
Efling hefur ítrekað bent á að Virðing sé gervistéttarfélag, stofnað af fyrirtækjaeigendum. Stofnfélagar og stjórnarmenn í Virðingu eru þannig starfandi veitingamenn eða fólk með náin vensl við veitingamenn, og fólk nátengt inn í stjórn SVEIT. Sömuleiðis hefur Efling birt ítarlegan samanburð á gervikjarasamningi SVEIT og Virðingar annars vegar og Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Þar er bent á að ekki einasta innihaldi gervikjarasamningurinn mun verri kjör fyrir starfsfólk heldur í ofanálag séu í honum fjölmörg ákvæði sem brjóta gegn íslenskum lögum og Evrópureglugerðum.
Sólveig Anna bendir í erindum sínum til alþjóðlegu veitingakeðjanna að framganga SVEIT og Virðingar hafi verið fordæmd af verkalýðshreyfingunni allri á Íslandi, og grafi ekki einungis undan réttindum starfsfólks heldur vegi að orðspori fyrirtækjanna. „Þó Efling geri sér grein fyrir að sérleyfishafar starfi sem sjálfstæð eining undir vörumerki ykkar, þýða tengslin að framganga þeirra gætu brugðið slæmu ljósi á orðspor ykkar á heimsvísu.“
Í erindunum óskar Sólveig Anna eftir því að Subway IP LLC og Hard Rock Cafe International rannsaki hegðun Stjörnunnar ehf. og HRC Íslands ehf, til að „tryggja að allir sérleyfishafar sem starfi undir ykkar vörumerki uppfylli gildandi vinnulöggjöf, sem og hvers kyns siðferðileg vinnubrögð tengd fyrirtækinu“.