MAGNA lögmenn hafa fyrir hönd Eflingar stéttarfélags sent framkvæmdastjóra Kringlunnar erindi þar sem vakin er athygli á að í það minnsta einn rekstraraðili í Kringlunni brjóti gegn starfsfólki sínu. Er þar vísað til þess að forsvarsmaður veitingastaðarins Finnsson Bistro hafi lýst því yfir að starfsfólk veitingastaðarins skuli fylgja ólögmætum kjarasamningi gervistéttarfélagsin Virðingar og SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði. Er í erindinu skorað á Kringluna að bregðast við.
Í erindi MAGNA lögmanna er vísað til opinberrar umfjöllunar um málefni gervistéttarfélagsins Virðingar. Um sé að ræða félag stofnað að undirlagi atvinnurekenda, til að gæta þeirra eigin hagsmuna en ekki verkafólks. Því teljist Virðing ekki stéttarfélag í skilningi laga og samningar gerðir á vettvangi þess teljist ekki kjarasamningar og hafi því ekki réttaráhrif sem slíkir.
Hinn svokallaði kjarasamningur gervistéttarfélagsins felur að öllu leyti í sér lakari kjör og minni réttindi en gildandi kjarasamningur Eflingar og Samtaka atvinnulífsins kveður á um. Því greiði þau fyrirtæki sem nýti sér hinn ólögmæta samning laun sem eru undir lágmarkslaunum. Auk þess inniber hinn ólögmæti samningur ákvæði sem eru í andstöðu við ákvæði laga, þar á meðal lög um 40 stunda vinnuviku, lög um jafnameðferð á vinnumarkaði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Forsvarsmaður Finnsson Bistro hefur sem fyrr segir lýst því opinberlega að starfsfólki staðarins muni gert að taka laun samkvæmt hinum ólögmæta samningi. Með því eru starfsfólki greidd lægri laun en lög heimila og réttindi þess brotin.
„Kringlan hlýtur að gera þá kröfu að sú starfsemi sem rekin er í Kringlunni sé í samræmi við lög. Í löglegri starfsemi felst meðal annar að verslanir og veitingahús virði almennar reglur vinnumarkaðarins í rekstri sínum. Efling gerir ráð fyrir að Kringlan bregðist við því ef upplýst er að fyrirtæki í Kringlunni brjóti gegn réttindum starfsfólk sem þar starfar,“ segir í bréfi MAGNA lögmanna.
Skorað er á Kringluna að bregðast við háttsemi rekstraraðila Finnsson Bistro og bregðast við. Enn fremur er þess óskað að MAGNA lögmenn verði, fyrir hönd Eflingar, upplýst um viðbrögð við erindinu eigi síðar en 31. janúar næstkomandi.