Vegna endurnýjunar á húsnæði Eflingar stéttarfélags hefur starfsemi félagsins verið flutt frá 3. hæð upp á 4. hæð þar sem félagsheimili Eflingar er venjulega til húsa. Móttaka hefur verið sett þar upp fyrir félagsfólk sem á erindi við félagið og ætlað er að starfsemin verði þar næstu mánuði meðan á framkvæmdunum stendur. Um aðeins minna pláss er um að ræða og gæti afgreiðsla því tekið eilítið lengri tíma en verið hefur.
Efling biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Starfsfólk Eflingar mun kappkosta að sem minnst röskun verði á starfseminni en félagsfólk er hvatt til að nýta sér rafræn samskipti við starfsfólk í sem mestum mæli af þessum sökum.
Áætluð verklok framkvæmdanna eru í júlí 2025 og mun þá öll aðstaða í húsnæðinu verða eins og best verður á kosið, til hagsbóta fyrir starfsfólk og félaga í Eflingu. Endurnýjun húsnæðisins mun gjörbylta aðstöðu starfsfólks og þjónustu við félagsfólk. Móttökurými skrifstofunnar verður algjörlega umbylt og það lagað að nútímanum, með auknum þægindum og aðlaðandi umhverfi. Sömuleiðis verður viðtalsaðstaða bætt verulega með næði og góðu aðgengi í forgangi.