
Í tilefni af sláandi viðtali við trúnaðarmann Eflingar, M. Andreina Edwards Quero, hjá fyrirtækinu Ræstitækni ehf. sem birtist í sjónvarpsfréttum RÚV þann 14. febrúar vill Efling stéttarfélag koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum.
Stjórnendur Ræstitækni hófu í mars 2024 óeðlileg afskipti af störfum Andreinu sem trúnaðarmanns og aðra framkomu sem sýndi henni óvild. Það lýsti sér m.a. svo:
- Haft var samband við Eflingu og Andreina sökuð um að dreifa röngum upplýsingum til vinnufélaga án þess að nokkur rök væru færð fyrir þeim ásökunum á hendur henni.
- Andreina var kölluð á fund þriggja yfirmanna þar sem henni var sagt að hún ætti ekki að eiga bein samskipti við vinnufélaga sína um kjaramál og hún yrði að leita leyfis yfirmann til að gera slíkt. Þetta er brot á réttindum verkafólks.
- Andreinu var skipað af yfirmönnum að viðurkenna fyrir vinnufélögum sínum að hafa veitt þeim rangar upplýsingar. Engar sannanir lágu fyrir um að hún hefði gert það.
- Andreinu var neitað um að sækja trúnaðarmannanámskeið, þvert á ákvæði kjarasamninga.
- Sama dag og Andreina hélt starfsmannafund, til að kynna samstarfsfólki réttindi þess og bjóða þeim aðstoð Eflingar við að kanna kjör þeirra, var tveimur vinnufélögum hennar sagt upp störfum. Bæði voru þau vinir Andreinu og höfðu tjáð sig um réttindamál í fyrirtækinu.
- Lögmaður Eflingar gerði munnlegt samkomulag við Ræstitækni um að Andreina fengi lengt fæðingarorlof vegna veikinda. Ræstitækni sveik þetta loforð, í trássi við lög.
Ræstitækni brýtur gegn kjarasamningum í fjölmörgum liðum
Efling hefur ítrekað óskað eftir fundum með forsvarsmönnum Ræstitækni og gögnum um skipulag vinnunnar, án árangurs. Samtök atvinnulífsins hafa tekið að sér að svara fyrir fyrirtækið frá því í apríl 2024 og stutt afstöðu þess.
Hjá Ræstitækni starfa ríflega 30 Eflingarfélagar. Flestir eru frá Venesúela og margir þeirra tala einungis spænsku. Þeir keyra milli verkstaða og er gert að ljúka við þrif á allt að 13 mismunandi stöðum innan sama dags víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Fylgst er með þeim í gegnum GPS búnað. Starfsmenn hafa engan aðgang að salerni eða aðstöðu til að matast yfir daginn. Vinnudagur þeirra er þannig skipulagður að þeir fá ekkert matarhlé.
Starfsmenn Ræstitækni þurfa að ljúka verkum innan ákveðins tíma, oft á miklum vinnuhraða. Það kallast tímamæld ákvæðisvinna, sem greiða skal 20% hærra tímakaup fyrir. Enginn starfsmaður Ræstitækni fær greidd laun í samræmi við það.
Mælingar sem Efling lét erlendan sérfræðing vinna sýna að ómögulegt er að vinna þá vinnu sem Ræstitækni krefst á tilætluðum hraða. Vinnutaktur Andreinu á verkstað sem var mældur hefði þurft að vera 190, en eðlilegur vinnutaktur samkvæmt kjarasamningum er 100.
Í vinnuverndarúttekt sem gerð var á vinnustaðnum vegna Andreinu eftir að hún varð ófrísk segir að hún hafi „sjaldan tryggan aðgang að salerni“ og sé „því með einhvers konar skál út í bíl sem hún notar til þvagláta.“ Eigandi fyrirtækisins sagðist í frétt RÚV 14. febrúar ekki kannast við þetta, þrátt fyrir að fyrirtækið sjálft hafi pantað úttektina og sent hana til lögmanns Eflingar.