
Efling stéttarfélag stendur, ásamt ellefu öðrum félögum, fyrir kvennagöngu og baráttufundi fyrir friði og jafnrétti á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er „Gegn hernaði og nýlenduhyggju“
Í lýsingu viðburðarins segir: „Við getum ekki aðskilið baráttu fyrir kvenréttindum frá baráttu fyrir friði, jöfnuði og réttlæti. Við krefjumst þess að allar konur njóti frelsis og mannréttinda án mismununar. Baráttan fyrir friði er kvennabarátta því stríð eru yfirleitt hafin af karlmönnum en hafa ekki síst áhrif á konur og börn.“
Konur og kvár eru hvött til að safnast saman á Arnarhóli klukkan 13:00 og ganga saman fylktu liði yfir í Iðnó þar sem baráttufundurinn fer fram. Þar verða haldin ávörp og tónlistaratriði flutt af breiðum hópi kvenna.
Hér á landi hafa kvenfélög, stéttarfélög, friðar- og mannréttindasamtök árum saman sameinast í baráttufundi á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti.
Að fundinum standa:
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Félagið Ísland-Palestína
Stígamót
Mannréttindaskrifstofan
Alþjóðlegur jafnréttisskóli GRÓ
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Rauða regnhlífin
Sósíalískir feministar
Samtök hernaðarandstæðinga
Samtökin 78
Félagsráðgjafafélagið
Efling