
Efling blæs til sýningar á fjölskyldumyndinni Paddington í Perú fyrir Eflingarfélaga og fjölskyldur þeirra í vetrarfríinu þriðjudaginn 25. febrúar klukkan 14:00. Myndin verður sýnt í Laugarásbíó og kostar litlar 500 krónur inn en innifalið í miðaverði er popp og gos eða svali. Miðasala fer fram á mínum síðum Eflingar.
Margir kannast við bangsann geðþekka sem fannst á Paddington-brautarstöðinni í London og var nefndur í höfuðið á henni. Þetta er þriðja kvikmyndin um Paddington en hinar fyrri hafa notið mikilla vinsælda meðal bæði barna og fullorðinna. Hver man til að mynda ekki eftir hinu óborganlega atriði þegar bangsinn litli var lentur í fangelsi og setti í ógáti rauðan sokk með fangabúningunum í þvottinn? Harðjöxlunum sem sátu í tugthúsinu með Paddington fóru bleiku fangabúningarnir afar vel.
Að þessu sinni snýr Paddington aftur til heimkynna sinna í Perú til að heimsækja sína ástkæru frænku Lucy, sem dvelur á dvalarheimili fyrir aldraða birni. Með Brown fjölskylduna í eftirdragi lenda þau í spennandi ævintýri þegar óleyst ráðgáta steypir þeim út í óvænt ferðalag til Amazon regnskógarins og upp í fjöll Perú. Myndin er talsett á íslensku.