Sumarúthlutun orlofshúsa Eflingar hafin

14. 02, 2025

Opnað hefur verið fyrir sumarúthlutun orlofshúsa Eflingar stéttarfélags og stendur fyrsta umsóknartímabilið til 3. mars næstkomandi.Félagsfólk getur sótt um orlofsbústaði á Mínum síðum Eflingar en félagið á tugi orlofshúsa um land allt. 

Mikil uppbygging hefur staðið yfir á orlofshúsum Eflingar síðustu misseri og ár. Að sama skapi hefur mikil endurnýun átt sér stað á eldri orlofshúsum og stendur hún enn. Orlofssvið Eflingar vill kappkosta að geta boðið félagsfólki upp á spennandi valkosti, hvað varðar staðsetningu húsanna, umhverfi og nútíma þægindi. Á vefsíðu Eflingar má kynna sér orlofshúsin sem um ræðir. 

Ekki skiptir máli hvenær félagsfólk sækir um orlofshús á úthlutunartímabilinu sökum þess að úthlutað er eftir punktakerfi sem byggir á sögu um greiðslur iðgjalda. Fyrsta úthlutun verður 5. mars næstkomandi og er greiðslufrestur til 12. mars. 

Opnað verður fyrir aðra úthlutun 13. mars þar sem þeir sem ekki fengu úthlutað í fyrstu umferð geta sótt um. Greiðslufrestur er til 19. mars. Bókunarvefurinn verður síðan opnaður enn á ný 20. mars fyrir alla félagsmenn sem eiga rétt á að bóka orlofshús og gildir þá að sá sem fyrstur kemur fær. 

Aðeins er í boði að leigja orlofshús Eflingar í viku yfir sumartímann. Alla jafna hefur leigan miðast við föstudag til föstudags en nú er hefur sú breyting verið gerð að á ákveðnum svæðum verður miðað við fimmtudag til fimmtudags. Þau svæði sem það á við um eru eftirtalin:

Mosar í Reykholti, Biskupstungum

Svignaskarð (ásamt Skarði, Borgarseli og Skarðslæk)

Ölfusborgir

Illugastaðir

Sótt er um rafrænt á Mínum síðum. Allar fyrirspurnir má senda á orlof@efling.is.