Efling stéttarfélag, ásamt Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Starfsgreinasambandinu (SGS), hefur lagt fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna ólöglegs samráðs fyrirtækja á veitingamarkaði og innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT).
Kvörtunin beinist að bæði SVEIT og aðildarfélögum þess, sem gerðu kjarasamning við gervistéttarfélagið Virðingu. Virðing er í raun undir stjórn veitingafyrirtækja, og samningurinn felur í sér samráð um launakjör, sem er brot á samkeppnislögum.
SVEIT var stofnað árið 2021 og hefur síðan markvisst reynt að veikja kjör starfsfólks í veitingageiranum. Fyrirtækið óskaði eftir kjarasamningaviðræðum við Eflingu árið 2022, en stefna þess var að lækka álagsgreiðslur og lengja dagvinnutíma. Þegar Efling hafnaði viðræðum leitaði SVEIT til SGS í sama skyni. SGS hafnaði sömuleiðis tilraunum SVEIT til að skerða réttindi íslensks launaflokks.
SVEIT kærði Eflingu fyrir Félagsdóm, og krafðist viðurkenningar á því að samtökin færu með samningsumboð fyrir sín aðildarfélög, auk annars. Félagsdómur gerði SVEIT afturreka með allan sinn málatilbúnað og hafnaði öllum þeirra kröfum. Dómurinn staðfesti í nóvember 2023 að gildandi kjarasamningur Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) væri lágmarkskjarasamningur sem binda ætti aðildarfélög SVEIT.
Þrátt fyrir þetta hefur SVEIT haldið áfram að reyna að skerða réttindi og kjör launafólks, síðast með stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar. SVEIT og Virðing undirrituðu svokallaðan kjarasamning sem skerðir kjör starfsfólks verulega og brýtur gegn fjölmörgum lagagreinum.
Kvörtunin til Samkeppniseftirlitsins byggir á því að:
- Samningur SVEIT og Virðingar er ekki raunverulegur kjarasamningur, heldur einhliða ákvörðun atvinnurekenda.
- Hann felur í sér ólögmætt verðsamráð um launakjör á veitingamarkaði.
- Verðsamráðið fór fram á vettvangi SVEIT, sem brýtur gegn samkeppnislögum.
Virðing er ekki raunverulegt stéttarfélag heldur framlenging á hagsmunum atvinnurekenda. Það veitir enga þjónustu og hefur engar samskiptaupplýsingar á heimasíðu sinni, auk þess sem kjarasamningur gervifélagsins við SVEIT skerðir kjör og réttindi launafólks. Þá eru stofnendur og stjórnarmenn Virðingar allir annað hvort veitingamenn sjálfir eða bundnir veitingamönnum þéttum böndum, eru til að mynda makar þeirra eða börn
Efling, ASÍ og SGS fordæma atlögu veitingamanna að kjörum launafólks, þar sem samkeppnislög eru þverbrotin. Því er óskað eftir því að Samkeppniseftirlitið grípi til aðgerða.
Erindið til Samkeppniseftirlitsins má lesa hér að neðan.