Efling þáttakandi í alþjóðlegu námskeiði í grunnatriðum verkalýðsbaráttunnar

31. 03, 2025

Nýlega tók hópur félagsfólks í Eflingu stéttarfélagi þátt í alþjóðlegu námskeiði þar sem  grunnatriði verkalýðsbaráttunnar voru reifuð. Á námskeiðinu, sem var rafrænt, tóku þátt um níu þúsund þátttakendur frá ríflega eitt hundrað samtökum víðs vegar að í heiminum, og sameinuðust í baráttunni fyrir réttindum verkafólks.

Námskeiðið, sem ber heitið Organizing for Power: The Core Fundamentals, var sérstaklega hannað til að veita þátttakendum djúpan skilning á áhrifum samtakamáttar og hvernig hægt er að nýta hann og efla til að ná fram raunverulegum og stórum sigrum í verkalýðsbaráttunni. Námskeiðið var hannað út frá kenningum og reynslu Jane McAlevy og félaga um skipulag verkalýðsbaráttunnar en aðferðafræðin hefur margoft sannað sig með stórum sigrum verkafólks þegar það hefur beitt umræddum aðferðum.

Í námskeiðinu var farið í gegnum mikilvægar kenningar um skipulagningu, stjórnun og hvernig verkalýðsbarátta getur verið áhrifarík til að bæta lífskjör og réttindi. Þá var námskeiðið einnig frábært tækifæri til að kynnast félögum frá öllum heimshornum, deila reynslu og fá nýjar hugmyndir sem styrkt geta starf Eflingar.

Með því að leggja áherslu á, og auka meðvitund um, sameiginlega hagsmuni, valdeflingu og áhrifaríkt skipulag lærðu þátttakendur hvernig hægt er að beita sér til að tryggja stærri sigra í lífskjarabaráttu verkafólks.

Mikilvægi persónulegra samskipta

Þórir Jóhannesson, varaformaður Eflingar, var einn þátttakenda og var afar ánægður með þá vitneskju sem hann þar öðlaðist, meðal annars að fá í hendurnar verkfæri til að virkja félagsmenn í samtölum augliti til auglitis. „Það er sjálfsagt að félagsmaður standi vörð um og berjist fyrir sínum kjörum og réttindum,“ segir Þórir um það sem hann tekur með sér frá námskeiðinu.

Stella Suparman, félagi í Eflingu, sótti einnig námskeiðið og segir hafa lært afar margt, þá ekki síst mikilvægi þess að nálgast fólk. Ég held að persónuleg tengsl og sterkur vilji séu lykilatriði þegar við erum að skipuleggja. Ég man sérstaklega eftir hlutanum þegar þau töluðu um spítala í Hollandi – þar voru aðeins tveir í stéttarfélaginu, en þeir þurftu að skipuleggja fundi til að ná til 90% af heildarstarfsfólki sjúkrahússins til að undirbúa verkfall eftir fimm vikur!
 
Það hljómar virkilega krefjandi, þar sem þeir náðu aðeins til 45% starfsmanna í fyrstu undirskriftasöfnuninni, en góðu fréttirnar eru að þessum trúnaðarmönnum tókst að virkja samstarfsfólk sitt og að fá meirihluta starfsmanna í aðgerðir. Með því að kortleggja tengslanet innan hverrar deildar og halda utan um skipulagningu á áhrifaríkan hátt tókst þeim að fá fólk með sér.“

Hlynur Gauti Ómarsson, trúnaðarmaður og meðlimur trúnaðarráðs Eflingar, segir að hann hafi gerst trúnaðarmaður af þeirri ástæðu einni að hann hafi viljað tryggja að vinnufélagar sínir vissu fyrir hverju væri barist, af hverju mögulega stæði til að þau færu í verkfall.  „Þetta námskeið sýndi mér, sem trúnaðarmanni á mínum vinnustað, af hverju við, sem Efling, þurfum að beita verkföllum sem vopni. Við, sem sátum námskeiðið, lærðum hvenær, og hvaða verkfærum við getum beitt áður en kemur að verkfalli, en þegar til þess kemur er eitt víst: VIÐ ERUM TILBÚIN.“