
Lúðrasveit verkalýðsins heldur sína árlegu vortónleika 20. mars næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í Flóa í Hörpu. Eflingarfélagar eru sérstaklega hvattir til að mæta og njóta tónleikanna, sem í ár verða með rokk og popp þema. Frítt er inn á tónleikana eins og alltaf hefur verið og eru öll velkomin.
Lúðrasveit verkalýðsins var stofnuð þann 8. mars 1953 til þess að „efla tónmennt meðal verkalýðsins, leika á útifundum, í kröfugöngum og á öðrum samkomum alþýðunnar,“ rétt eins og segir í 2. grein laga sveitarinnar. Starfsemi og saga sveitarinnar hefur verið samofin verkalýðshreyfingunni í Reykjavík allan þann tíma. Efling er meðal bakhjarla lúðrasveitarinnar og hefur verið um árabil. Sveitin hefur launað Eflingu með því að spila ítrekað á samkomum félagsins, til að mynda á hátíðarsamkomum á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, 1. maí.
Farið verður um víðan völl á tónleikunum. Verða leiknar lagasyrpur þekktra hljómsveita og tónlistarfólks, á borð við Led Zeppelin, Deep Purple og Elvis Presley. Karen Sturlaugsdóttir stjórnar sveitinni af röggsemi.