
Aðalfundur Eflingar stéttarfélags fór fram miðvikudaginn 16. apríl á Hótel Hilton Reykjavík Nordica. Fundinn setti formaður félagsins, Sólveig Anna Jónsdóttir, sem bauð gesti velkomna og lagði til að Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, yrði fundarstjóri og Viðar Þorsteinsson fundarritari. Tillögurnar voru samþykktar með lófataki.
Skýrsla stjórnar og framtíðarsýn formanns
Sólveig Anna flutti ítarlega skýrslu stjórnar þar sem hún undirstrikaði mikilvægi félagsins og hlutverk þess í samfélaginu:
„Við erum ómissandi,“ sagði hún. „Við krefjumst skilyrðislausrar viðurkenningar á þeirri staðreynd. Markmið okkar er að vera fremst í kjarabaráttu verkafólks.“
Hún lýsti ánægju sinni með stöðu félagsins og sagði árangur umbóta undanfarinna ára augljósan:
„Umdeild ákvörðun árið 2022 um að gera skipulagsbreytingar hefur skilað miklum árangri. Við höfum ákveðið að reka félagið fyrir allt félagsfólk og gefast ekki upp þrátt fyrir mikla andstöðu. Félagið er opið öllu félagsfólki og því er mætt með vinsemd og virðingu.“
Sólveig vakti athygli á öflugri þátttöku félagsfólks í viðræðum við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Hún sagði mikinn sóma að þátttöku félagsfólks í baráttu félagsins og að það væri nú sem fyrr lykillinn að árangri:
„Þar sem fólk raunverulega stendur saman og styður hvert annað verða sterkari möguleikar til sigurs. Við töpum aldrei gleðinni sem við finnum hvert með öðru. Við höldum skemmtiviðburði og gleðjumst saman á viðburðum eins og Mat og menningu, förum saman í bíó og höfum gert fyrsta maí hátíðahöld að miklum viðburði.“
Sólveig rakti einnig þá vinnu sem farið var í við að skoða stöðu mönnunar á hjúkrunarheimilunum. Starfshópar hafa verið settir á laggirnar með þátttöku Eflingar, þar sem Viðar Þorsteinsson og Ragnar Ólason hafa setið sem fulltrúar félagsins. Sú vinna stendur enn yfir.
Einnig ræddi hún helstu verkefni ársins, þar á meðal þátttöku í kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins (SA) sem hluti af Breiðfylkingunni og aðrar samningaviðræður félagsins.
Hún lauk ræðu sinni með þökkum til starfsfólks félagsins, sérstaklega Perlu Ösp Ásgeirsdóttur framkvæmdastjóra. Þá þakkaði hún Sveini Ingvasyni fyrir störf hans í orlofshúsamálum félagsins, þar sem hann lætur nú af störfum sökum aldurs. Sveinn stóð upp og var hylltur með lófataki.
Reikningar og fjárhagur
Perla Ösp Ásgeirsdóttir kynnti ársreikning félagsins fyrir árið 2024 og kom þar fram að fjárhagsstaða Eflingar er gríðarlega traust. Áframhaldandi umbætur og endurskipulag innan félagsins skiluðu sér í jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Reikningarnir voru samþykktir með miklum meirihluta.
Kjör í stjórn og trúnaðarráð
Þórir Jóhannesson, varaformaður félagsins, kynnti niðurstöðu uppstillingarnefndar. Þar sem engin mótframboð bárust voru listar sjálfkjörnir og ný stjórn og trúnaðarráð löglega staðfest.
Sjáið Árskýrslu Eflingar 2024 hér fyrir neðan