Framúrskarandi árangur Eflingar – Afkoman jákvæð um 1,3 milljarða

Jákvæð rekstarniðurstaða Eflingar stéttarfélags á árinu 2024 nam tæpum 1,3 milljörðum króna. Hækkuð félagsgjöld, styrk stjórnun sem skilaði lægri kostnaði og góð ávöxtun eignasafns félagsins eru þeir samverkandi þættir sem skila þessari frábæru niðurstöðu í rekstri félagsins, Eflingarfélögum til hagsbóta.

Þetta má sjá í ársreikningi Eflingar fyrir árið 2024, sem er finna aftast í fréttinni. Rekstrarniðurstaða Eflingar stéttarfélags var jákvæð um ríflega 1.281 milljarð króna á síðasta ári. Það er ríflega 79% hækkun frá árinu 2023, þegar hagnaður félagsins nam tæpum 715 milljónum króna. Sem fyrr segir eru hafa nokkrir samverkandi þættir áhrif á þessa gríðargóðu rekstarniðurstöðu. 

Fyrst ber að nefna að félagsgjöld til Eflingar hækkuðu á árinu um 11% frá fyrra ári. Má skýra hækkunina annars vegar með því að kjarasamningar náðust á árinu sem juku laun félagsfólks Eflingar, og hækkuðu þar með félagsgjöld. Hins vegar skilaði aukin skilvirkni við innheimtu félagsgjalda árangri. 

Lægri kostnaður

Í annan stað lækkaði kostnaður félagsins milli ára um 26 milljónir króna. Verður það að teljast mjög góð niðurstaða í ljósi viðvarandi hárrar verðbólgu og hækkun aðfanga í rekstri Eflingar. Þá fjölgaði stöðugildum á skrifstofu félagsins frá fyrra ári og laun og starfsmannakostnaður jukust. Rétt er að geta þess að hluti þeirra launa og launatengdu gjalda sem Efling greiddi á síðasta ári var vegna starfsfólks í tímabundnum verkefnum sem sér nú fyrir endann á. 

Sé stiklað á stóru varðandi kostnaðarliði má nefna að bætur og útgreiddir styrkir, sem eru langstærsti kostnaðarliður félagsins, lækkuðu um 4% milli ára. Má rekja þá lækkun að hluta til breytinga á starfsreglum Sjúkrasjóðs Eflingar sem tóku gildi á síðasta aðalfundi félagsins. Þá lækkaði kostnaður vegna félagslegs starfs verulega við útgöngu Eflingar úr Starfsgreinasambandinu. 

Umtalsverð hækkun varð á kostnaði vegna rekstrar orlofshúsa og annarrar orlofsþjónustu milli ára. Skýrist sú hækkun einkum af því að á árinu stóð félagið að byggingu eða kaupum á sex nýjum orlofshúsum, auk þess sem verulegt átak var gert í viðhaldi og endurbótum á þeim húsum sem félagið átti fyrir. 

Þá er einn stór áhrifaþáttur í lækkun kostnaðar á milli ára ótalinn. Hann er sá að Efling stóð ekki  í neinum verkfallsaðgerðum á árinu 2024, ólíkt því sem var árið 2023. Þar af leiðandi var kostnaður Vinnudeilusjóðs aðeins um 11 milljónir á árinu, borið saman við rúmar 220 milljónir árið áður. 

Góð ávöxtun eignasafns

Mjög góð ávöxtun á eignasafni Eflingar á síðasta ári hafði þá mikið að segja um hagnað ársins en afkoma fjármagnsliða nam 860 milljónum króna. Eignasafn Eflingar í verðbréfum og innlánum nam 13 milljörðum króna í lok árs 2024 en stærstur hluti eignasafnsins er í eigu Vinnudeilusjóðs og Sjúkrasjóðs. Ávöxtun eignasafnsins á árinu var góð, nafnávöxtun var um 10% og raunávöxtun um 4,5% sem verður að teljast mjög ásættanlegt. 

Eigið fé Eflingar stéttarfélags í árslok 2024 nam tæpum 17 milljörðum króna og hafði aukist um tvo milljarða milli ára. 

Meðfylgjandi ársreikningur Eflingar stéttarfélags fyrir árið 2024, sem sjá má hér að neðan, var samþykktur og undirritaður af stjórn félagsins og framkvæmdastjóra á fundi í gær, fimmtudaginn 3. apríl 2025. Reikningurinn liggur einnig frammi á skrifstofu Eflingar fyrir félagsfólk til að kynna sér.

Ástæða er til að nefna að Efling hefur unnið markvisst að því að birta betri og ítarlegri skýringar í ársreikningum ár frá ári, til að tryggja gagnsæi í rekstri félagsins. Efling lítur svo á að slíkt gagnsæi sé órjúfanlegur þáttur í góðum stjórnarháttum sem stundaðir eru hjá félaginu og veiti félagsfólki og öðrum hagsmunaaðilum glögga mynd af rekstri og meðferð fjármuna félagsfólks.