Ný reiknivél fyrir orlofsuppbót

Á vef Eflingar stéttarfélags er nú aðgengileg reiknivél sem gerir félagsfólki kleift að reikna út orlofsuppbót sína á einfaldan og skjótan máta. Hægt er að stilla reiknivélina eftir mismunandi kjarasamningum, þar á meðal kjarasamningum fyrir almenna vinnumarkaðinn (SA), hótel og veitingahús, Reykjavíkurborg, ríkið, önnur sveitarfélög sem og hjúkrunarheimili (SFV). Upphæðin er reiknuð miðað við orlofsárið 2024, sem nær frá 1. maí 2024 til 30. apríl 2025.

Reiknivélin er hluti af þeirri vegferð Eflingar að einfalda félagsfólki aðgengi að upplýsingum um réttindi sín og tryggja betri yfirsýn hvar og hvenær sem er. Hún nýtist einnig launagreiðendum við útreikning á orlofsuppbót starfsfólks síns, til að tryggja að hún sé rétt reiknuð.

Til að fá áætlaða orlofsuppbót þarf að velja viðeigandi kjarasamning sem viðkomandi starfar samkvæmt. Því næst er valið tímabil innan orlofsársins sem unnið var, ásamt starfshlutfalli á því tímabili. Út frá þessum upplýsingum reiknar vélin þá upphæð sem áætlað er að verði greidd út 1. júní.