„Okkar vinna skapar verðmætin“ – Ársskýrsla Eflingar komin út

15. 04, 2025

„Raunveruleg auðsköpun verður til með vinnu okkar – verkafólks sem notar vöðvaafl sitt og vitsmuni til að halda uppi öllum okkar grundvallarkerfum, hvort sem er á almenna eða opinbera vinnumarkaðnum. Við berum í raun mesta ábyrgð í þjóðfélaginu, við framleiðum verðmætin og búum til hagvöxtinn, sem allt samfélagið nýtur svo góðs af. Við í Eflingu setjum fram einbeitta og háværa kröfu um að þessi staðreynd fáist viðurkennd.“

Þetta skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir í formannsávarpi sínu til félagsmanna Eflingar stéttarfélags í nýútkominni ársskýrslu Eflingar fyrir árið 2024. Árið 2024 var að mörgu leyti mjög árangursríkt í starfi Eflingar, eins og um er fjallað í ársskýrslunni. Þannig var sögulegur kjarasamningur undirritaður á árinu, Stöðugleika- og velferðarsamningurinn. Hins vegar hafa viðsemjendur Eflingar, því miður, leitað allra leiða til að komast hjá því að greiða að fullu umsamdar hækkanir.

„Við berum í raun mesta
ábyrgð í þjóðfélaginu“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar

„Við erum vinnuafl höfuðborgarsvæðisins – okkar vinna skapar verðmætin og knýr áfram hagvöxtinn. Það er því óþolandi að sjá bæði almenna og opinbera viðsemjendur félagsins ganga á bak gerðum samningum við okkur,“ skrifar Sólveig einnig og leggur á það áherslu að Eflingarfólk mun aldrei hopa í réttmætri og sanngjarnri baráttu sinni fyrir bættum kjörum og virðingu.

Rekstrarniðurstaða Eflingar á árinu 2024 var gríðarlega jákvæð, þrátt fyrir umfangsmikil umbótaverkefni og innleiðingarferli sem hrint var í framkvæmd, og óhjákvæmilega fylgdi kostnaður. Alls var niðurstaðan jákvæð um tæpa 1,3 milljarða króna. Nánar er fjallað um rekstrarniðurstöðu félagsins í inngangi framkvæmdastjóra, Perlu Aspar Ásgeirsdóttur, sem og í ársreikningi félagsins.

Í ársskýrslunni er starfsemi félagsins rakin, bæði starfsemi sviða skrifstofu Eflingar og einnig félagslegt starf stéttarfélagsins. Þá er þar að finna greiningar á þróun félagahóps Eflingar frá aldamótum, tölfræðilegar upplýsingar um þjónustu félagsins og umfjöllun um kjaraviðræður og kjaramál. Hægt er að nálgast ársskýrsluna hér.

Aðalfundur Eflingar árið 2025 fer fram á morgun, 16. apríl, á Hótel Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2. Fundurinn hefst 18:00 og eru Eflingarfélagar hvattir til að mæta.